Sala á íslensku neftóbaki, sem oft er kallaður „Ruddi“, jókst um 19 prósent í fyrra. Árið 2013 seldi Áfengis- og tóbaksverslun ríksins (ÁTVR), sem framleiðir og selur tóbakið, 27,6 tonn af því. Í fyrra rauk salan upp og var samtals 32,9 tonn. ÁTVR hefur aldrei áður selt jafn mikið af neftóbaki.
Alls skilaði neftóbakssalan 692,5 milljónum krónum í kassann, eða 115,6 milljónum krónum meira en árið áður. Tekjurnar jukust því um 20 prósent á milli ára. Þetta kemur fram í ársskýrslu ÁTVR sem var birt í vikunni.
Einokun lengi
Árið 1996 var fínkornað munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi. Það þýðir að neftóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett. Samhliða hefur neysla á munntóbaki aukist töluvert og þeir sem neyta þess kaupa annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði, þar sem er mikið framboð, eða nota neftóbakið sem ÁTVR framleiðir, hinn svokallaða „Rudda“, sem munntóbak. Þessi aukna neysla hefur skilað auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munar, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar. Tóbaksgjald á neftóbak hækkaði til að mynda um 100 prósent 1. janúar 2013. Meðalútsöluverð á tóbaksdós af „Rudda“ er, samkvæmt lauslegri könnun Kjarnans, tæplega 2.000 krónur.
Siðferðisleg spurning hvenær neftóbak er munntóbak
Í inngangi ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2014, fjallar Ívar J. Arndal, forstjóri fyrirtækisins, um áhyggjur sínar af aukinni neftóbaksneyslu. Þar segir Ívar: „Kannanir sýna að neyslan á neftóbaki hefur færst í munn og nú er svo komið að yfirgnæfandi hluti neftóbaksins er notaður í munn. Nýir notendur eru helst ungir karlmenn. Samkvæmt lögum er sala munntóbaks ólögleg á Íslandi. Það er siðferðileg spurning hvenær íslenska neftóbakið, sem búið er að framleiða eftir sömu uppskrift frá því fyrir stríð, er raunverulega orðið að munntóbaki og þar með ólöglegt. Í dag er íslenska neftóbakið sem ÁTVR framleiðir eina reyklausa tóbakið á markaðinum. Engin formleg skilgreining er til á því hvaða eðlisþættir það eru sem greina á milli neftóbaks og munntóbaks. ÁTVR hefur vakið athygli heilbrigðisyfirvalda á málinu en ljóst er að neysluaukningin á neftóbakinu er slæm og nauðsynlegt að sporna við þróuninni.“ Á sama tíma og neftóbaksneysla hefur stóraukist hefur sala á sígarettum á hvern íbúa dregist umtalsvert saman. Árið 2005 seldi ÁTVR 65 pakka á hvern íbúa yfir 15 ára aldri. Í fyrra var sú tala komin niður í 42 pakka. Það þýðir að hver Íslendingur keypti rúmlega þriðjungi færri sígarettupakka í fyrra en hann gerði níu árum áður.