Stefnt er að því að í nýju hverfi sem skipulagt verður á Keldum og Keldnaholti verði byggð nokkur bílastæðahús á lykilstöðum, sem komi að mestu í stað bílakjallara og einkabílastæða inni á lóðum í hverfinu. Þetta kemur fram á nýjum upplýsingavef sem Reykjavíkurborg hefur sett upp vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar Keldnalandsins.
Þar segir að horft sé til bílastæðahúsanna til þess að draga úr byggingarkostnaði og stytta framkvæmdatíma húsbygginga, auk þess sem með þessu sé dregið úr áhrifum á grunnvatn. „Horfa á til þess að húsin geti hýst miðlæga þjónustu fyrir aðliggjandi svæði til á jarðhæð og að hægt verði að breyta þeim í atvinnu- eða íbúðarhúsnæði ef bílastæðaþörf minnkar í framtíðinni,“ segir í umfjöllun á vef borgarinnar.
Þetta eru svipaðar áherslur og settar hafa verið fram í skipulagi Nýja-Skerjafjarðar, þar sem horft er til þess að stórt miðlægt bílastæðahús leysi bílageymsluþörf íbúa.
Í afar mörgum nýbyggingum sem byggðar hafa verið á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum og áratugum eru bílakjallarar undir húsum, sem eykur bæði byggingarkostnað (talan 6-10 milljónir á hvert stæði hefur verið nefnd) og byggingartíma húsnæðis.
Skipulagssamkeppni á næsta ári
Reykjavíkurborg og Betri samgöngur vinna saman að uppbyggingu Keldnalandsins og Keldnaholts, en búið er ákveða að efna til alþjóðlegrar samkeppni um nýtt rammaskipulag fyrir svæðið, sem á að fara af stað á fyrri hluta næsta árs. Samkvæmt því sem kemur fram á vef borgarinnar er stefnt að því að hægt verði að þróa deiliskipulag fyrir fyrstu uppbyggingarreitina á svæðinu haustið 2023.
Á vef borgarinnar segir að stefnt sé að því að þjónusta Borgarlínu hefjist samhliða afhendingu á fyrstu 100 íbúðunum í hverfinu, og Borgarlína er sögð ein helsta forsenda þess að hægt sé að „umbreyta Keldum í blandaða byggð með íbúðum, þjónustu og atvinnuhúsnæði“.
Svæðið sem um ræðir er alls um 115 hektarar, og á vef borgarinnar má sjá skýringarmyndina sem er hér að neðan, þar sem sá flötur er lagður yfir önnur svæði í Reykjavík.
Umhverfisgæði svæðisins verði nýtt
Í umfjöllun á vef Reykjavíkurborgar segir að Keldur séu fallegt og grænt svæði og að áhersla verði lögð á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins. við uppbyggingu hverfisins. „Þarna gefst tækifæri við uppbyggingu til að nýta ræktun sem er fyrir á svæðinu og flétta inn í borgarumhverfið svo úr verði grænir borgargarðar. Hverfið verður byggt upp í suðurhlíðum borgarinnar og liggur því vel við sólu,“ segir á vef borgarinnar.
Einnig kemur þar fram að auk góðra almenningssamgangna verði lögð áhersla á framúrskarandi göngu- og hjólaleiðir og að skipulag verði á forsendum vistvænna og hagkvæmra samgangna.
„Útgangspunkturinn er að uppbygging svæðisins hafi sem minnst ytri áhrif til aukningar í bílaumferð á aðliggjandi stofn- og tengibrautum og að almenningssamgöngur verði fyrsti kostur í lengri ferðum,“ segir á vef borgarinnar.