Íslenski fjármálageirinn hefur gengið í gegnum mikinn hreinsundareld á síðustu sex árum, frá hruni Glitnis, Landsbankans og Kaupþings haustið 2008, en ný stoð er nú á teikniborðinu, þar sem íslenskir einkafjárfestar myndu ráða för og bjóða fram skýran valkost í samkeppni við endurreistu bankana þrjá, Íslandsbanka, Landsbankann og Arion banka.
Ármann sýnir MP banka áhuga
Meðal þess sem hefur verið til alvarlegrar skoðunar, og lifandi viðræður eru í gangi um, er að sameina Straum fjárfestingarbanka og MP banka og jafnvel fleiri minni fjármálafyrirtæki, eins og Íslensk verðbréf og Virðingu. Eignarhlutir í MP banka og Íslenskum verðbréfum hafa verið til sölu í nokkurn tíma en lítill áhugi hefur verið á þeim, samkvæmt heimildum Kjarnans. Samkvæmt heimildum Kjarnans sýndi Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í London, því áhuga á dögunum að kaupa hlutafé MP banka en það gekk ekki eftir á þeim tíma. Ármann vildi ekki tjá sig um málið þegar Kjarninn náði af honum tali, og sagði ekkert vera til þess að tjá sig um að svo stöddu. Ekki væri því öðru við að bæta en „no comment“. Ármann er meðal hluthafa í fyrirtækinu Virðingu.
Breski fjárfestirinn Joe Lewis er stærsti einstaki eigandi MP banka með tæplega 10 prósenta hlut í gegnum félagið Manastur Holding B.V. Skúli Mogensen á aðeins minni hlut, 9,9 prósent, í gegnum félag sitt Títan ehf. og Lífeyrissjóður verzlunarmanna kemur næstur með 9,74 prósenta hlut. Íslenska ríkið á lítinn hlut í bankanum í gegnum Eignasafn Seðlabanka Íslands, eða 4,36 prósent. Þrátt fyrir að hluturinn sé ekki stór er Eignasafnið þó áttundi stærsti einstaki hluthafi bankans. Eigið fé MP banka nam um fimm milljörðum í lok síðasta árs og var eiginfjárhlutfallið 14,2 prósent á þeim tíma.
Íslensk verðbréf enn í sölumeðferð
Margir hafa skoðað kaup á Íslenskum verðbréfum (ÍV), en Íslandsbanki er þar stærsti eigandi með 27,1 prósents hlut. Skemmst er að minnast þess þegar MP banki ætlaði að kaupa ÍV en allt kom fyrir ekki. Samkvæmt heimildum Kjarnans er enn horft til þess að ÍV geti orðið hluti af stærra fjármálafyrirtæki, jafnvel nýrri stoð í fjármálakerfinu, það er sameinuðum banka Straums og MP banka eða öðrum hvorum bankanum. Hlutur Íslandsbanka hefur lengi verið til sölu en illa hefur gengið að finna nýja eigendur sem eru tilbúnir að borga það fyrir hlutinn sem Íslandsbanki vill fá fyrir hann. Félagið er með rætur á Norðurlandi og höfuðstöðvar á Akureyri og sinnir eignastýringu fyrir einstaklinga, fagfjárfesta, félagasamtök og fyrirtæki. Rekstur félagsins hefur verið stöðugt með jákvæða rekstrarafkomu frá árinu 2002 og á síðasta ári skilaði félagið 138 milljónum króna í hagnað. Eignir sem félagið stýrir voru í árslok í fyrra 112 milljarðar króna. Stærstu hluthafar eru, auk Íslandsbanka, Íslensk eignastýring ehf., með 21 prósents hlut, Stapi lífeyrissjóður með 15 prósenta hlut og Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga með 14,4 prósenta hlut. Heiðrún Jónsdóttir er formaður stjórnar félagsins en með henni í stjórn eru Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds.
Þetta er aðeins stutt útgáfa af umfjölluninni. Hana má lesa í heild sinni í Kjarnanum.