Tekjur Samfylkingarinnar á síðasta ári voru 152,4 milljónir króna. Þar af komu 114 milljónir króna í formi framlaga frá ríkissjóði, Alþingi og sveitarfélögum, tæplega 13 milljónir komu í form framlaga einstaklinga og rúm milljón króna frá lögaðilum. Inni í þeim tölum eru ekki innheimt flokksgjöld, alls um fjórar milljónir króna, en þau nánast tvöfölduðust milli ára.
Þorri þeirra einstaklinga sem gáfu yfir 300 þúsund krónur til flokksins er fólk úr forystusveit hans. Má þar nefna formanninn Loga Einarsson, varaformanninn Heiðu Björg Hilmisdóttur og Dag B. Eggertsson, borgarstjóra í Reykjavík.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Samfylkingarinnar sem skilað var inn til Ríkisendurskoðunar fyrir skemmstu. Flokkurinn var með átta þingmenn í lok síðasta kjörtímabils eftir að Rósa Björk Björk Brynjólfsdóttir gekk til liðs við hann. Hann fékk hins vegar sjö kjörna árið 2017 og 12,1 prósent atkvæða, en atkvæðamagnið segir til um hversu háa fjárhæð flokkar fá úthlutað úr ríkissjóði. Samfylkingin tapaði 2,2 prósentustigum í síðustu kosningum og er nú með sex þingmenn. Framlög til flokksins úr ríkissjóði munu því dragast saman á þessu kjörtímabili.
Launakostnaður jókst um 46 prósent
Launakostnaður flokksins jókst umtalsvert á árinu 2020, eða um 46 prósent, og var 41,7 milljónir króna. Hjá flokknum störfuðu þrír starfsmenn á árinu 2020. Í raun jókst allur kostnaður við rekstur flokksins, alls um 50 prósent milli ára, og var 110,2 milljónir króna. Það þýðir samt sem áður að rekstrarhagnaður af rekstri Samfylkingarinnar var 42,2 milljónir króna á árinu 2020 og hreinn hagnaður tæplega 40 milljónir króna.
Eigið fé flokks jafnaðarmanna var 203,5 milljónir króna um síðustu áramót og jókst um tæplega 39 milljónir króna milli ára. Frá árslokum 2018 og til loka síðasta árs jókst eigið fé flokksins um 110,5 milljónir króna, eða um 120 prósent.
Framlög til flokka úr ríkissjóði hækkuð gríðarlega
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega í byrjun síðasta kjörtímabils. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði fá samtals 728,2 milljónir króna til að skipta á milli sín á næsta ári.
Um er að ræða þá átta flokka sem eiga fulltrúa á þingi auk Sósíalistaflokks Íslands sem hlaut nægjanlegt fylgi í síðustu kosningum til að hljóta framlag.
Það er sama upphæð og flokkarnir fengu samtals í fyrra og sama upphæð og þeir fengu í ár. Raunar gera áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að hún haldist óbreytt út árið 2024. Haldi það munu stjórnmálaflokkar landsins alls hafa fengið 3.641 milljónir króna úr ríkissjóði á fimm ára tímabili.
Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.
Ársreikningar nú birtir í heild
Fulltrúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex formenn stjórnmálaflokka, lögðu svo sameiginlega fram frumvarp til að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í lok árs 2018. Það var afgreitt sem lög fyrir þinglok þess árs.
Á meðal breytinga sem það stuðlaði að var að leyfa stjórnmálaflokkum að taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlag var 400 þúsund krónur en var breytt í 550 þúsund krónur.
]Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda sé hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Þá var ákveðið að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og áður var. Sú grundvallarbreyting fylgdi með að Ríkisendurskoðun hætti að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og átti þess í stað að birta ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.
Þrátt fyrir að lögin hafi tekið gildi í byrjun árs 2019 þurftu flokkarnir þó ekki að sæta því að ársreikningar þeirra væru birtir í heild á árinu 2019. Þeirri framkvæmd var frestað fram á haustið 2020. Því eru ársreikningarnir nú að birtast í annað sinn í heild sinni.
Sem stendur hefur Ríkisendurskoðun ekki birt ársreikninga þriggja flokka; Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Píratar vegna síðasta árs. Kjarninn mun fjalla um ársreikninga allra þeirra flokka sem skilað hafa ársreikningi á næstu dögum.