Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 21,1 prósent samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Það eykst 4,5 prósentustig milli mánaða og hefur rúmlega tvöfaldast frá síðustu kosningum, en þá fékk flokkurinn 9,9 prósent atkvæða. Þetta er í fyrsta sinn sem fylgi Samfylkingarinnar mælist yfir 20 prósent í könnun Gallup frá því í lok árs 2014, þegar flokkurinn sat síðast í ríkisstjórn og mesta fylgi sem hann hefur mælst með í rúmlega tíu ár, eða frá því í október 2012. Þá sat Samfylkingin í ríkisstjórn með Vinstri grænum og var undir formennsku Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þetta er þriðja könnunin á skömmum tíma sem sýnir mikla fylgisaukningu Samfylkingarinnar. Í nóvember birtust kannanir frá bæði Maskínu og Prósent sem sýndu svipaða stöðu. Hvorug þeirra sýndi fylgið þó yfir 20 prósentunum.
Helsta breytingin sem orðið hefur á högum Samfylkingarinnar á allra síðustu vikum er kosning Kristrúnar Frostadóttur sem formanns flokksins, en það gerðist 28. október síðastliðinn.
Framsókn ekki minni á kjörtímabilinu
Á sama tíma mælist fylgi Vinstri grænna nálægt því minnsta sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með hjá Gallup, eða 7,5 prósent. Minnsta fylgið mældist í sumar, en það var 7,2 prósent.
Framsóknarflokkurinn mælist nú með 12,2 prósent fylgi sem er minnsta fylgi sem hann hefur mælst með á kjörtímabilinu.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist nú 43,5 prósent. Það fylgi myndi ekki duga fyrir meirihluta á þingi. Flokkarnir þrír fengu 54,4 prósent atkvæða í kosningunum 2021 og því hafa þeir tapað 10,9 prósentustigum af fylgi á fyrsta ári kjörtímabilsins. Það er minna en allt það fylgi sem Samfylkingin hefur bætt við sig á því rúma ári sem liðið er frá síðustu kosningum, en það er 11,2 prósent.
Flokkur fólksins ekki inni
Píratar mælast jafn stórir og Framsóknarflokkur með 12,2 prósent og hafa bætt við sig 3,6 prósentustigum á kjörtímabilinu. Viðreisn mælist tæpu prósentustigi undir kjörfylgi með 7,4 prósenta fylgi.
Þrír minnstu flokkarnir sem mælast með fylgi eru Miðflokkurinn með 5,6 prósent, Sósíalistaflokkurinn með 5,2 prósent og Flokkur fólksins með 4,5 prósent. Sá síðastnefndi hefur tapað miklu á kjörtímabilinu og næði varla inn með það fylgi sem hann mælist með nú.