Fjárfestingafélagið Kaldbakur, sem haldið hefur utan um ýmsar fjárfestingareignir Samherjasamstæðunnar, verður að fullu aðskilið annarri starfsemi sjávarútvegsfélagsins í lok þessa árs.
Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Samherja í dag, en þar segir samhliða frá því að Kaldbakur muni flytja starfsemi sína í gamla Landsbankahúsið á Akureyri, sem félagið keypti nýlega á 750 milljónir króna.
„Samkvæmt skiptingaráætlun er fullur aðskilnaður Kaldbaks við Samherja miðaður við uppgjör 30. júní 2022 og verður áætlunin að fullu komin til framkvæmda í lok þessa árs. Kaldbakur verður sterkt félag með eignarhluti í félögum bæði hér á Íslandi sem og erlendis,“ er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Kaldbaks og stjórnarformanni Samherja hf. í tilkynningunni.
Taka við eignum Samherja ótengdum sjávarútvegi
Í tilkynningu Samherja segir að frá því að Samherji var stofnaður fyrir nærri fjörutíu árum síðan hafi félagið eignast hluti í ýmsum félögum sem í dag teljist ekki til kjarnastarfsemi Samherja, veiðum, fiskeldi, vinnslu og sölu afurða. Ákveðið hafi verið að Kaldbakur taki yfir þessar eignir og verði sjálfstætt starfandi fjárfestingafélag „til að skerpa á áherslum í starfseminni og auka gagnsæi“.
Kaldbakur heldur á umtalsverðum eignum Samherjasamstæðunnar nú þegar, meðal annars um þriðjungshlut í Síldarvinnslunni, 4,52 prósenta hlut í Högum auk þess sem Kaldbakur á rúmlega 45 prósent hlut í félaginu Hrólfssker ehf., sem áður hét SVN eignafélag ehf.
Það félag er stærsti einstaki eigandi trygginga- og fjárfestingafélagsins Sjóvá, með 15,17 prósent hlut.
Ætla má, miðað við það sem fram kemur í tilkynningu Samherja, að 32,79 prósenta hlutur Samherja Holding ehf. í Eimskip muni einnig renna inn í Kaldbak, auk ýmissa annarra eigna samstæðunnar sem tengjast ekki með beinum hætti veiðum, vinnslu, fiskeldi og sölu afurða.