Evruríkin komust að samkomulagi um framhald lánveitinga til Grikklands á fundi í Brussel nú í kvöld. Samkomulagið gildir til næstu fjögurra mánaða, en án þess hefðu samningar runnið út um mánaðamótin og góðar líkur virtust á því að Grikkir yrðu uppiskroppa með fjármagn.
Hér má lesa yfirlýsinguna sem gefin var út í kvöld.
Grikkir beygðu sig undir vilja Evrópusambandsins, en gerðu það á sínum forsendum, virðist vera línan sem tekin er hjá sérfræðingum í Aþenu.
„Þetta er mjög jákvæð útkoma,“ sagði Jeroen Dijsselbloem, forseti evruhópsins og fjármálaráðherra Hollands þegar fundinum lauk í kvöld. Hann sagði að stjórnvöld í Grikklandi hefðu lofað að standa við allar sínar skuldbindingar. „Ég held að í kvöld hafi verið stigið fyrsta skrefið í átt að því að byggja traust upp á ný.“
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, sagði að þessir fjórir mánuðir verði nýttir til að byggja upp samskiptin við Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann þarf að afhenda tillögur að umbótum í Grikklandi á mánudaginn og segist ætla að vinna að þeim alla helgina, nótt og dag. Hann sagði samkomulagið í kvöld ekki tilefni til fögnuðar, heldur væri það lítið skref í rétta átt.
Fjármálaskýrandi BBC bendir þó á að samkomulagið í kvöld haldi í raun bara í tvo daga, vegna þessara umbóta sem ríkisstjórnin í Grikklandi þarf að leggja fram á mánudag. Það er alls ekki víst að það takist eða að um umbæturnar náist sátt í Grikklandi.