Stjórnvöld og heildarsamtök vinnumarkaðarins hafa náð samkomulagi um starfsemi VIRK starfsendurhæfingarsjóðsins. Samkomulagið tryggir að allir sem þurfa á því að halda fá atvinnutengda starfsendurhæfingu til þess að verða virkir á vinnumarkaði á ný.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skrifuðu undir samkomulagið við Hannes G. Sigurðsson, formann stjórnar VIRK, í dag.
Óvissa hefur ríkt um starfsendurhæfingu undanfarna mánuði, eftir að fjárlög voru samþykkt sem gerðu ráð fyrir mun lægra framlagi ríkisins til VIRK en um hafði verið samið.
Ætlaði að hafna skjólstæðingum ríkisins
VIRK- starfsendurhæfingarsjóður greindi frá því í desember 2014 að hann myndi ekki taka við einstaklingum sem standa utan vinnumarkaðar, sem eru örorkulífeyrisþegar eða skjólstæðingar félagsmálastofnana á árinu 2015 ef framlag ríkisins til sjóðsins yrði ekki hækkað.
Stjórnarformaður sjóðsins tilkynnti Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, þetta bréfleiðis þann 18. nóvember í kjölfar þess að fjárlög, sem gera ráð fyrir að framlag ríkisins til VIRK á árinu 2015 yrðu 200 milljónir króna, voru samþykkt. Samkvæmt lögum og samningum sem hafa verið undirritaðir átti framlag ríkisins til VIRK að vera 1,1 milljarður króna á árinu 2015.
Í bréfinu sagði ennfremur að þá lægi „fyrir að ríkið mun ekki að standa við samkomulagið og því er VIRK nauðbeygt til að tilkynna starfsendurhæfingarstöðvunum um breyttar forsendur þjónustukaupa á næsta ári“. Því muni VIRK „ekki geta tekið einstaklinga í þjónustu á árinu 2015 sem ekki er greitt iðgjald af í sjóðinn“.
Eygló Harðardóttir ,félags- og húsnæðismálaráðherra, svaraði því til að ef VIRK myndi ekki falla frá þeirri ákvörðun sinni að hafna 200 milljóna króna framlagi ríkisins „verði allt kapp lagt á að tryggja fólki þá þjónustu sem það þarf hjá VIRK eða eftir öðrum leiðum“. Ráðherrann sagði að það sé ekki hlutverk VIRK að safna peningum í sjóði og taldi eðlilegt að lækka framlög til stofnunarinnar í ljósi þess að hún á varasjóð.
Síðar var tilkynnt um að viðræður stæðu yfir um að höggva á þenna hnút. Nú liggur fyrir niðurstaða úr þeim viðræðum.
Ríkið hefur ekki greitt sinn hluta
Virk er starfsendurhæfingarsjóður sem stofnaður var af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins (SA) í maí 2008. Í janúar 2009 var svo undirrituð ný stofnskrá og þá komu stéttarfélög og atvinnurekendur á opinberum vinnumarkaði að sjóðnum. Tilurð sjóðsins byggir á samkomulagi milli þeirra sem að honum standa um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar í kjarasamningum á vinnumarkaði sem gert var árið 2008.
Síðan þá hafa atvinnurekendur og lífeyrissjóðir greitt hlutfall af stofni iðgjalds til sjóðsins til að standa undir rekstri hans og starfsendurhæfingu þeirra sem eru virkir á atvinnumarkaði. Ríkið átti síðan, samkvæmt lögum sem samþykkt voru árið 2012 og samningum sem voru gerðir þegar VIRK var sett á fót, að greiða framlag til sjóðsins. Það framlag átti meðal annars að fjármagna starfsendurhæfingu þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir, þiggja örorkulífeyri eða eru skjólstæðingar félagsmálastofnana. Í ljósi þess hefur VIRK sinnt þeim skjólstæðingum sem ríkið átti að greiða kostnað af. Ríkið hefur hins vegar ekki borgað sinn hluta.