Ákveðið hefur verið að fresta samkeppni um að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2026 vegna rannsókna á spillingu í tengslum við úthlutun á mótunum 2018 og 2022. Jérôme Valcke, framkvæmdastjóri Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, segir að það væri vitleysa að hefja ferlið við að ákveða hvaða ríki fær að halda keppnina árið 2026. Kjósa átti um þetta í Kuala Lumpur í maí árið 2017.
Bandaríkin eru talin líkleg til að hreppa hnossið, en búist er við því að Kanada, Mexíkó og Kólumbía hafi einnig áhuga á að halda mótið.
Verið er að rannsaka hvernig staðið var að valinu á Rússlandi, sem heldur mótið 2018, og Katar, sem heldur mótið 2022. Rannsóknin er í tengslum við umfangsmikla spillingarrannsókn á FIFA.
Áætlað hafði verið að greina aðildarsamböndum FIFA frá því í vikunni hvernig staðið yrði að valinu fyrir mótið 2026, en Valcke sagði að í ljósi stöðunnar væri það rugl að hefja ferlið nú. Hann varði einnig gjörðir FIFA, en mikið hefur verið fjallað um tíu milljóna dala greiðslu sem stjórnvöld í Suður-Afríku greiddu og greint hefur verið frá að Sepp Blatter, forseti FIFA, hafi vitað af og rætt um. Saksóknarar í Bandaríkjunum segja að greiðslan, sem fór til verkefna í Karabíska hafinu, hafi verið mútugreiðsla, en því haf FIFA og stjórnvöld í Suður-Afríku hafnað.