Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna MP banka og Straums fjárfestingarbanka. Eftirlitsstofnunin tilkynnti um ákvörðun sína í dag. Að mati eftirlitsins leiðir samruninn ekki til myndunar eða styrkingar markaðsráðandi stöðu bankanna á markaði.
„Á þeim mörkuðum sem samrunaaðilar starfa eiga þeir m.a. í samkeppni við þrjá alhliða banka sem eru hver um sig miklum mun stærri en sameinaður banki samrunaaðila. Verulegur munur er því á fjárhagslegum styrkleika sameinaðs banka og hvers þessara stóru banka. Að undangenginni rannsókn er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sú að ekki séu fyrir hendi vísbendingar um að samruninn leiði til myndunar eða styrkingar markaðsráðandi stöðu samrunaaðila á neinum markaði,“ segir Samkeppniseftirlitið.
Í gær var greint frá því að hluthafar bankanna tveggja munu kjósa um samrunann þann 22. júní næstkomandi. Stefnt er að því að nýr banki hefji starfsemi í haust undir nýju nafni. Samkvæmt samrunaáætluninni verður skipti hlutafjár í sameinaða félaginu þannig að núverandi hluthafar MP banka munu eiga 58,66 prósent af virku hlutafé en núverandi hluthafar Straums fjárfestingabanka munu eignast 41,34 prósent af virku hlutafé.