Fyrirkomulag Isavia á úthlutun afgreiðslutíma fyrir flugfélög á Keflavíkurflugvelli hindrar samkeppni og Icelandair nýtur samkeppnisforskots hjá Isavia. Þetta kemur fram í nýju áliti Samkeppniseftirlitsins, sem vill að innanríkisráðuneytið og Samgöngustofa grípi til aðgerða vegna þessa. Almenningur hafi hag af því að virk samkeppni verði sett í forgang.
Undanfarin ár hafa keppinautar Icelandair ítrekað kvartað yfir því að Icelandair njóti samkeppnisforskots, þar sem félagið hafi fengið forgang að afgreislutímum á flugvellinum milli 7 og 8 á morgnanna og milli 16 og 17:30 síðdegis. „Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiðir í ljós að afgreiðslutímar á þessum tímabilum eru sérstaklega mikilvægir flugfélögum sem vilja koma á samkeppni í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku, með Keflavíkurflugvöll sem tengistöð. Rannsóknin leiðir ennfremur í ljós að Icelandair hefur ekki aðeins forgang að afgreiðslutímum sem félaginu hefur verið úthlutað áður, heldur einnig nýjum afgreiðslutímum sem stafa af aukinni afkastagetu,“ segir í áliti Samkeppniseftirlitsins.
Isavia hefur mótmælt þessum kvörtunum og er ósammála því að úthlutun afgreiðslutíma hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Það sé nóg af lausum afgreiðslutímum utan álagstíma. „Þá bera samskipti við Samgöngustofu með sér að stofnunin hefur takmarkaðan skilning á þeim samkeppnishindrunum sem tengjast úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli og Samkeppniseftirlitið hefur bent á um árabil. Hefur stofnunin virt að vettugi tilmæli Samkeppniseftirlitsins um að framkvæma samkeppnismat við endurskoðun á fyrirkomulagi við úthlutun á afgreiðslutímum,“ segir í álitinu.
„Samkeppni í áætlunarflugi til og frá landinu hefur mikla þýðingu fyrir almenning og atvinnustarfsemi, ekki síst ferðaþjónustu. Þar sem samkeppni hefur komist á höfum við notið þess í lægri flugfargjöldum. Keflavíkurflugvöllur er eina gátt okkar til og frá landinu. Stjórnvöldum ber því skylda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að allir keppinautar sitji þar við sama borð,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í tilkynningu frá eftirlitinu.
Samkeppniseftirlitið beinir því til Ólafar Nordal innanríkisráðherra að hún beiti sér fyrir því að „ráðist verði í aðgerðir til þess að draga úr samkeppnishömlum sem stafa af fyrirkomulagi við úthlutun afgreiðslutíma til flugfélaga á Keflavíkurflugvelli.“
Uppbygging Keflavíkurflugvallar og flugstöðvarinnar á næstu 25 árum gerir ráð fyrir að afkastageta vallarins muni tvöfaldast. Samkeppniseftirlitið segir að það séu sterkar vísbendingar um að þessari aukningu á afkastagetu sé ætlað að mæta þörfum Icelandair, en ekki minni keppinauta. „Þetta má m.a. ráða af þeirri afstöðu til samkeppnissjónarmiða sem birst hefur í svörum Isavia.“