Samkeppniseftirlitið hefur birt tilkynningu á heimasíðu sinni vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um leka á trúnaðarupplýsingum um rannsókn þess á skipafélögunum Eimskip og Samskip. Þar vísað eftirlitið á bug "órökstuddri umfjöllun í Morgunblaðinu um að meint miðlun trúnaðarupplýsinga vegna framangreindrar rannsóknar tengist dómi Hæstaréttar frá í haust vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2011 um misnotkun Vífilfells á markaðsráðandi stöðu. Í fréttaskýringu Morgunblaðsins kemur jafnframt fram að Samkeppniseftirlitið hafi í framhaldi af dómi Hæstaréttar í haust ráðist aftur í húsleit hjá Vífilfelli til að ná sínu fram þrátt fyrir dóminn. Hið rétta er að Samkeppniseftirlitið hefur aldrei framkvæmt húsleit hjá Vífilfelli vegna umræddrar rannsóknar."
Í frétt Morgunblaðsins var m.a. greint frá því að starfsmaður Samkeppniseftirlitsins hafi réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn á leka gagna um rannsókn eftirlitsins á Eimskip og Samskip til Kastljóss síðastliðið haust. Þar sagði ennfremur: "Svo gerðist það í fyrrahaust, rúmri viku eftir að Samkeppniseftirlitið tapaði í Hæstarétti máli sem það hafði rekið gegn Vífilfelli í sjö ár vegna ásakana um misnotkun á markaðsráðandi stöðu, að SKE réðst aftur inn í húsleit hjá Vífilfelli til þess að ná sínu fram þrátt fyrir úrskurð hæstaréttar.Ýmsir viðmælendur Morgunblaðsins sögðu í fyrrahaust, að þessi rannsókn og síðar leki, væri í beinu framhaldi af því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði greint frá því að stefnt yrði að sameiningu ákveðinna ríkisstofnana til þess að ná fram sparnaði og hagræðingu í opinberum rekstri, sem meðal annars hefði getað þýtt breytt hlutverk Samkeppniseftirlitsins og breytt stjórnskipulag"
Segja lekann ekkert tengjast hugsanlegri sameiningu
Þetta segir Samkeppniseftirlitið að sé rangt og að óhjákvæmilegt sé að vísa umfjöllun um að lekinn tengist dómi Hæstaréttar í máli Vífilfells á bug. Auk þess segir: "Í fréttaskýringu Morgunblaðsins kemur jafnframt fram að Samkeppniseftirlitið hafi í framhaldi af dómi Hæstaréttar í haust ráðist aftur í húsleit hjá Vífilfelli til að ná sínu fram þrátt fyrir dóminn. Hið rétta er að Samkeppniseftirlitið hefur aldrei framkvæmt húsleit hjá Vífilfelli vegna umræddrar rannsóknar.
Í fréttaskýringunni er einnig að finna órökstudda umfjöllun um að rannsókn á skipafélögunum og meint miðlun trúnaðarupplýsinga vegna þeirrar rannsóknar tengist umræðu um hugsanlegar sameiningar eftirlitsstofnana. Sú umfjöllun á ekki við rök að styðjast.
Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á skipafélögunum er rétt að árétta það sem fram kom í frétt eftirlitsins frá 15. október sl. að rannsókn málsins, sem hófst með húsleit í september 2013, er ekki komin á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður hennar. Öll umfjöllun um hugsanlega sekt fyrirtækjanna eða starfsmanna þeirra er því ótímabær."
Hægt er að lesa tilkynningu Samkeppniseftirlitsins í heild sinni hér.