Leiðtogar evruríkjanna hafa náð samkomulagi um skuldavanda Grikklands. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, tilkynnti þetta á Twitter-síðu sinni rétt fyrir klukkan sjö að íslenskum tíma. Þá höfðu fundir staðið yfir nærri sleitulaust alla helgina.
EuroSummit has unanimously reached agreement. All ready to go for ESM programme for #Greece with serious reforms & financial support
— Donald Tusk (@eucopresident) July 13, 2015
Finance ministers will as a matter of urgency discuss how to help #Greece meet her financial needs in the short term (bridge financing). — Donald Tusk (@eucopresident) July 13, 2015
Tusk greindi frá því að Grikkir fái neyðarlán í gegnum Stöðugleikasjóð Evrópu og að strax í kjölfar samkomulagsins verði ákveðið hvernig hægt er að fjármagna gríska ríkið, en stórar afborganir af lánum þeirra eru á gjalddaga í júlí.
Á blaðamannafundi í Brussel nú í morgun sagði Jeroen Dijsselbloem, forseti evruhópsins, hóps fjármálaráðherra evruríkjanna, að nú þurfi Grikkir strax að hefjast handa við að leiða í lög umbætur sem samkomulag náðist um. Ef stjórnvöld í Aþenu gera það strax á morgun og miðvikudag geti þjóðþing annarra ríkja farið að samþykkja þriðju neyðarlánaveitinguna, en það verður ekki gert fyrr en Grikkir hafa gripið til aðgerða.
Dijsselbloem greindi einnig frá því að 50 milljarða eignir Grikkja verði settar í nýjan sjóð sem á að hjálpa til við viðreisn grískra banka. Í gær stóð til að sjóður með eignum Grikkja yrði í Lúxemborg en að lokum var ákveðið að hann skyldi vera staðsettur í Aþenu.
Þegar þetta er skrifað er blaðamannafundur Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, nýhafinn. Hún segir enga þörf á plani B, svo að Grikkland sé ekki á leið úr evrusamstarfinu. Merkel segir að rætt verði um niðurfellingu skulda Grikkja, en að í samkomulaginu komi fram að evruríkin séu reiðubúin að lengja í lánum og lengja tímann sem Grikkir þurfi ekki að borga af lánum.
Hún bætti því þó við að enn væri mjög langur og erfiður tími framundan. Merkel sagði jafnframt að hún hefði trú á því að hægt væri að endurnýja traustið milli stjórnvalda í Grikklandi og Þýskalandi.