Deilur hjúkrunarfræðinga og ríkisins standa nú sem hæst. Það er verið að deila um hversu mikla hækkun stjórnvöld hafa boðið, og eru Ólafur Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, og Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, ekki sammála um hversu mikil hækkun á laun hefur falist í tilboðum stjórnvalda, sem hefur verið hafnað.
Lausnin á þessum vanda er einföld. Það er að birta öll gögn um kröfur og tilboð í deilunum til þessa, og leyfa fólkinu að meta hvernig staðan er, og um leið að fá skýringar á því hvernig á því stendur að deilan hefur verið jafn hörð og raun ber vitni.
Á þetta var bent á vef Kjarnans í gær, og full ástæða til þess að gera það aftur.
Síðan er það hitt, sem nú blasir við; Samningar sem stjórnvöld gerðu við lækna, um meira en 20 prósent hækkun launa, gátu aldrei annað gert en að hleypa upp samningarviðræðum við aðrar stéttir sem búa yfir alþjóðlegri þekkingu í heilbrigðiskerfinu, þar á meðal hjúkrunarfræðingum. Nákvæmlega sömu rök eiga við um hækkun launa hjúkrunarfræðinga og lækna.
Síðan verður að koma í ljós, hvort innistæða reynist vera fyrir þessum hækkunum á endanum, en það er önnur saga...