Þjónustusamningur dómsmálaráðuneytisins og Útlendingastofnunar við Rauða kross Íslands um aðstoð og þjónustu við hælisleitendur verður ekki framlengdur líkt og heimild er fyrir er hann rennur út í lok febrúar næstkomandi.
Með nýjum forsetaúrskurði milli ráðuneyta hefur þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd verið flutt frá dómsmálaráðuneyti (innanríkisráðuneyti) til félagsmálaráðuneytis. Félagsleg aðstoð færist þar með frá dómsmálaráðuneytinu og „með vísan til þess hafa forsendur breyst og eðli málsins samkvæmt mun dómsmálaráðuneytið ekki ganga frá bindandi samningi um þjónustuna,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Rauði krossinn hefur sinnt stuðningi og hagsmunagæslu fyrir hælisleitendur síðan 2014 þegar samningur þess efnis var fyrst undirritaður. Samkvæmt núgildandi samningi, sem gerður var árið 2018 í kjölfar forauglýsingar á EES-svæðinu, sinna samtökin félagslegum stuðningi við hælisleitendur og gæta hagsmuna þeirra á meðan þeir bíða niðurstöðu sinna mála eða flutnings úr landi. Einnig sinnir Rauði krossinn réttaraðstoð og talsmannaþjónustu vegna umsókna um vernd á lægra og æðra stjórnsýslustigi.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossi Íslands eru um 600 hælisleitendur í hæliskerfinu. Það af eru um 400 manneskjur með umsókn um vernd í gangi, ýmist hjá Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála, og um 200 hafa fengið niðurstöðu í mál sín og bíða flutnings úr landi.
Fimmtán lögfræðingar starfa hjá Rauða krossinum og sinna lögfræðiþjónustu við þennan stóra hóp fólks. Samtals starfar 21 starfsmaður á grundvelli þjónustusamningsins hjá samtökunum enda snýst þjónustan ekki aðeins um lögfræðiaðstoð heldur einnig félagslegan stuðning af ýmsu tagi.
Markmið samningsins er að tryggja „sjálfstæða og óháða hagsmunagæslu, þ.á.m. réttaraðstoð til allra umsækjenda í þeim tilgangi að jafnræðis og skilvirkni sé gætt, allir umsækjendur fái vandaða málsmeðferð, viðeigandi þjónustu og eigi greiðan aðgang að stuðningi og upplýsingum. Áhersla er lögð á að þessi þjónusta sé veitt með þeim hætti að einfalt sé fyrir umsækjendur að leita eftir henni og þeir þurfi ekki að ganga á milli þjónustuaðila“.
Hvað tekur við?
Þjónustusamningurinn var síðast framlengdur 24. febrúar í ár, aðeins örfáum dögum áður en hann rann út. Sú framlenging gildir til 28. febrúar næstkomandi en heimild er í samningnum til að framlengja hann einu sinni til viðbótar. Að öðrum kosti þarf, að því er Kjarninn kemst næst, að bjóða verkefnið út að nýju. Undirbúningur og framkvæmd slíks útboðs getur reynst tímafrek og þá má einnig búast við að færsla svo viðkvæmra verkefna sem mál hælisleitenda eru á milli aðila, verði það niðurstaða stjórnvalda, taki drjúgan tíma. Það er hins vegar ekki mikill tími til stefnu. Samningurinn rennur að óbreyttu út eftir tvo og hálfan mánuð. Enn er ekki ljóst hvað taki við.
Í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að gengið sé „út frá því að þjónusta við umsækjendur um vernd verði óbreytt meðan unnið er að innleiðingu breytinganna“.
Rof verði ekki á þjónustu
Samkvæmt núgildandi samningi á ákvörðun um framlengingu að liggja fyrir þremur mánuðum áður en samningurinn rennur út eða fyrir nóvemberlok. Þingkosningar fóru fram í september og ný ríkisstjórn, með ráðuneytum og ýmsum tilfærslum verkefna, tók ekki við fyrr en í lok nóvember. Ákvörðun um hvort stjórnvöld hefðu hug á því að framlengja samninginn lá því ekki fyrir um mánaðamótin.
Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri á alþjóðasviði Rauða krossins, segir við Kjarnann að samtökin leggi fyrst og fremst áherslu á að ekki verði rof í þjónustu við hælisleitendur, sem séu fólk í viðkvæmri stöðu, hverjum svo sem verði falið að veita hana í framtíðinni. Rauði krossinn hafi lagt til að samningurinn yrði endurnýjaður einu sinni til viðbótar til að nægur tími gæfist til að undirbúa tilfærslu þjónustunnar, ef slíkt yrði niðurstaða stjórnvalda. Atli vonast til þess að framhaldið skýrist síðar í vikunni svo allri óvissu verði eytt.
Fleiri sækja um hæli og fleiri fá vernd
Segja má að Rauði kross Íslands hafi talað fyrir bættu kerfi og þjónustu við móttöku hælisleitenda allt frá því að fyrsti hælisleitandinn kom hingað til lands á níunda áratug síðustu aldar. Fyrir um áratug ákváðu stjórnvöld að hælisleitendur ættu rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð. Sjálfstætt starfandi lögmenn með mismikla þekkingu á málefnum flóttafólks sáu fyrst um sinn um þjónustuna sem Útlendingastofnun greiddi fyrir ákveðið marga klukkutíma – oft án samhengis við eðli og umfang máls. Raunin varð því sú að gæði þjónustunnar voru afar mismunandi.
Rauði krossinn benti á að byggja yrði upp sanngjarnt og skilvirkt kerfi hvað þetta varðar og bauðst til að taka verkefnið að sér. Það varð úr og undanfarin ár hefur þjónustan verið hjá samtökunum samkvæmt samningi við stjórnvöld.
Á þessum tíma hefur umsóknum fólks um alþjóðlega vernd hér á landi fjölgað mikið. Málsmeðferðartími hælisumsókna hefur engu að síður styst verulega og hlutfall þeirra sem fá vernd stóraukist.