Búið er að setja upp samráðsvettvang stjórnvalda og þeirra aðila sem eiga hagsmuni á Rússlandsmarkaði vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í viðskiptasamskiptum Íslands og Rússlands. Vettvangurinn fundaði í fyrsta sinn í dag undir forystu forsætisráðuneytisins en fundinn sátu einnig fulltrúar viðkomandi ráðuneyta og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að á næstu dögum verði einnig leitað eftir samráði við Landssamtök fiskeldisstöðva og Landssamtök smábátaeigenda. Þar segir einnig að markmið samráðsvettvangsins sé að greiða fyrir upplýsingagjöf og samstilla aðgerðir þeirra að málinu koma.
Rússar settu innflutningsbann á matvæli frá Íslandi og fjórum öðrum ríkjum, samkvæmt yfirlýsingu frá Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, síðastliðinn fimmtudag. Íslandi var þá bætt á lista Rússlands yfir þau lönd sem óhemilt er að flytja inn matvæli frá. Önnur lönd sem bættust við á listann voru Albanía, Svartfjallaland, Ísland, Liectenstein og Úkraína.
Viðskiptahagsmunir Íslands í Rússlandi hafa vaxið mikið undanfarin ár. Árið 2004 voru fluttar út vörur til Rússlands fyrir um 2,3 milljarða króna en á árinu 2014 var útflutningurinn kominn í 29,2 milljarða króna.Stærsti hluti útflutnings til Rússlands er uppsjávarfiskur, aðallega makríll og síld. Um þriðjungur af heildarútflutningi á uppsjávarfiski á árinu 2014 fór til Rússlands.