Nokkur breyting varð á samsetningu tekna einstaklinga á Íslandi á árinu 2020 miðað við árið á undan. Aðrar tekjur en atvinnutekjur og fjármagnstekjur sóttu verulega í sig veðrið á árinu en hlutfall annarra tekna í heildartekjum landsmanna fór úr 20,6 prósentum upp í 24,7 prósent, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Það er um fimmtungshækkun. Til annarra tekna teljast meðal annars atvinnuleysisbætur, félagsleg aðstoð og lífeyris- og bótagreiðslur. Hlutfall atvinnutekna nam 68,5 prósentum og hlutfall fjármagnstekna nam 6,8 prósentum. Til atvinnutekna teljast launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur, til dæmis ökutækjastyrkur, dagpeningar, hlunnindi og reiknað endurgjald. Til fjármagnstekna teljast til að mynda vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar.
Þessi aukning á öðrum greiðslum má meðal annars rekja til kórónuveirufaraldursins en í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að summa tekna vegna atvinnuleysisbóta jókst um 240 prósent milli ára og félagsleg aðstoð um 31 prósent á verðlagi ársins 2020. Þá var á síðasta ári greiddur út sérstakur barnabótaauki til þeirra sem teljast framfærendur barna auk þess sem sérstök heimild var veitt til úttektar á séreignarsparnaði. Þær greiðslur teljast til annarra tekna.
Mikil aukning varð á atvinnuleysi snemma strax snemma í kórónuveirufaraldrinum. Í mars í fyrra var almennt atvinnuleysi 5,7 prósent og samtals 9,2 prósent, það er sé tekið tillit til þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli. Til samanburðar var atvinnuleysi 5 prósent í mánuðinum á undan. Hæst fór atvinnuleysið í apríl þegar það var samtals 17,8 prósent að teknu tilliti til þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli. Í þeim mánuði var almennt atvinnuleysi 7,5 prósent. Almenna atvinnuleysið fór svo stígandi þegar leið á árið og í desember var almennt atvinnuleysi 10,7 prósent en samtals 12,1 prósent.
Heildartekjur sambærilegar og fyrri ár
Í fyrra námu heildartekjur einstaklinga á Íslandi að meðaltali 7,1 milljón króna eða um 591 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildartekna var aftur á móti lægra, um 5,9 milljónir á ári eða um 488 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt tilkynningu Hagstofunnar hafa meðaltekjur hækkað árlega um rúmlega 3 prósent en verðlagsleiðiréttar heildartekjur eru nær óbreyttar á tímabilinu.
Tekjur þeirra sem yngstir eru voru lægstar árið 2020, en sérstaklega er vakin athygli á því í tilkynningu Hagstofunnar að margir í yngstu aldurshópunum búa enn í foreldrahúsum. Að meðaltali voru heildartekjur einstaklinga á aldrinum 16 til 19 ára um 117 þúsund krónur á mánuði. Í næsta aldurshópi fyrir ofan, hjá 20 til 24 voru heildartekjur á mánuði um 318 þúsund krónur að meðaltali á árinu 2020. Hæstu heildartekjurnar höfðu einstaklingar í aldurshópnum 45 til 49 ára, tekjur þeirra námu um 786 þúsund krónum að meðaltali í fyrra.