Einkahlutafélagið Blávík hefur keypt Samson-reitinn svokallaða af Landey ehf., dótturfyrirtæki Arion banka. Blávík eignaðist reitinn við kaup á einkahlutafélaginu Rauðsvík sem var í eigu Landeyjar. Reiturinn sem um ræðir markast af Barónstíg, Laugaveg, Vitastíg og Skúlagötu. Kaupverðið fæst ekki uppgefið að svo stöddu.
Eins og nafnið gefur til kynna dregur Samson-reiturinn nafn sitt af eignarhaldsfélaginu Samson Properties, sem var áður í eigu Björgólfsfeðga, en félagið er gjaldþrota í dag. Reiturinn afmarkaðist af Hverfisgötu í suðri. Samson hafði uppi háleitar og metnaðarfullar fyrirætlanir um uppbyggingu á reitnum árin fyrir hrun. Félagið gerði til að mynda samninga við Reykjavíkurborg árið 2007 um uppbyggingu Listaháskólans við Laugaveg, stúdentaíbúða við Lindargötu og uppbyggingu og útfærslu á nýjum verslunarkjarna á Landsbanka-Barónsreit. Sá reitur er í eigu GAMMA í dag.
Laugavegur 71 er á meðal fasteigna á reitnum, en þar eru skrifstofur Kjarnans til húsa.
Einkahlutafélagið Blávík var stofnað á þessu ári, en Þorvaldur H. Gissurarson, framkvæmdastjóri ÞG verktaka, og Ingi Guðjónsson, annar stofnenda Lyfju og fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, fara fyrir félaginu og hópi fjárfesta. Þorvaldur og Ingi eiga sæti í stjórn félagsins ásamt Vigni Óskarssyni, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðs Grindavíkur, en hann er jafnframt hluthafi í félaginu.
Rauðsvík hyggst þróa reitinn í samvinnu við Reykjavíkurborg á næstu mánuðum, með það að markmiði að byggja þar litlar miðbæjaríbúðir. Því er alls óvíst hvað verður um fasteignirnar sem fyrir eru á reitnum. Gengið var frá kaupunum í síðustu viku, en þá voru um níutíu leigusamningar í gildi á reitnum.