Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, skilaði 7,3 milljarða króna tapi á fyrri hluta ársins 2021. Það er aðeins betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir, en hún hafði reiknað með tæplega átta milljarða króna tapi á tímabilinu. Afkoman var því 672 milljónum krónum betri en stefnt hafði verið að, aðallega vegna þess að útsvarstekjur voru rúmlega 3,1 milljarði krónum meiri en áætlun hafði gert ráð fyrir. Á móti voru launaútgjöld 2,6 milljörðum krónum yfir fjárheimildum, að hluta til vegna aðgerða sem rekja má til kórónuveirufaraldursins.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar sem lagður var fyrir borgarráð í dag.
Matsbreytingar, hærra álverð og gengishagnaður
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, skilaði hins vegar miklu betri afkomu en reiknað hafði verið með, eða alls 13,1 milljarði króna. Hann nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Samanlagt nam því hagnaður A- og B-hluta Reykjavíkurborgar alls 11,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.. Áætlun hafði gert ráð fyrir tapi upp á 2,3 milljarða króna. Því nemur viðsnúningurinn frá áætlun að veruleika alls 13,8 milljörðum króna.
Eignir samstæðunnar voru metnar á 745,4 milljarða króna í lok júní síðastliðins og hækkuðu um 15 milljarða króna frá áramótum. Skuldir hækkuðu að sama skapi um 11,3 milljarða króna og stóðu í 397,1 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Reykjavíkurborgar er nú 46,7 prósent en var 47 prósent í lok árs 2019.