Peningastefnunefnd Seðlabankans mun á miðvikudaginn, 25. ágúst, kynna nýja vaxtaákvörðun sína. Samtök iðnaðarins (SI) vara við því að vextir verði hækkaðir, í greiningu sem birt er á vef samtakanna í dag. Við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í maí voru stýrivextir hækkaðir um 0,25 prósentustig og standa nú í 1 prósenti.
Í greiningu SI, sem sett er fram undir yfirskriftinni „Hyggilegt að hækka ekki vexti“ segir að ljóst sé að verðbólgan sem nú mælist 4,3 prósent sé að stórum hluta tímabundin og að góðar líkur líkur séu á að hún hjaðni nokkuð hratt á næstunni, en að vegna stöðu COVID-faraldursins sé mikil óvissa um efnahagshorfur.
„Bólusetning hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir og nýtt afbrigði veirunnar er í mikilli útbreiðslu bæði hér á landi og erlendis. Efnahagsbatinn sem nú má greina í hagtölum er því brothættur. Atvinnuleysi er enn umtalsvert og langtímaatvinnuleysi áhyggjuefni. Þrátt fyrir að eftirspurn hafi tekið við sér eru mörg fyrirtæki enn að glíma við mjög erfiðar afleiðingar efnahagsniðursveiflunnar. Mikilvægt er að mati SI að peningastefnunefndin leyfi efnahagsbatanum að njóta vafans um þessar mundir og fari hægt í hækkun vaxta,“ segir í greiningu SI.
Samtökin segja að í ljósi þess að enn séu þrír vaxtaákvörðunardagar eftir til áramóta hafi peningastefnunefnd „svigrúm til að fara sér hægt“ hvað vaxtahækkanir varðar. Mat samtakanna er að ekki ætti að hækka vexti núna á miðvikudaginn og segir í greiningu þeirra að skaðinn sem fylgir „hörðum aðgerðum í peningamálum“ sé um þessar mundir mun meiri en ávinningurinn.
„Við þessar aðstæður stendur peningastefnunefndin frammi fyrir því vali að ná verðbólgunni niður hratt eða styðja efnahagsbatann. Ljóst er að vaxtahækkanir munu hafa mikil áhrif á bæði fyrirtæki og heimili og hægja mjög á efnahagsbatanum. Kemur vaxtahækkunin sérstaklega hart niður á skuldsettum fyrirtækum og heimilum, þ.m.t. þeim sem hafa orðið illa úti efnahagslega í faraldrinum. Hækkun vaxta dregur úr fjárfestingum fyrirtækja og heimila sem fyrir eru litlar. Kostnaður harðra aðgerða í peningamálum til að snúa verðbólguna snarlega niður er því mjög mikill,“ segir í greiningu SI.
Þar kemur fram að verðbólgan sé farin að hjaðna og spár geri ráð fyrir því að hún muni hjaðna nokkuð hratt á næstu mánuðum, auk þess sem markaðsaðilar á fjármálamarkaði hafi væntingar um hratt hjaðnandi verðbólgu á næstunni.
Hrávörur og húsnæðisverð
Í greiningu samtakanna segir að hjaðnandi verðbólga og væntingar um frekari lækkun endurspegli þá trú að hluti verðbólgunnar sé vegna tímabundinna þátta tengdum efnahagsáhrifum faraldursins – sem séu utan áhrifasviðs Seðlabankans.
Þannig hafi faraldurinn stuðlað að verulegum verðhækkunum ýmissa aðfanga, ekki síst hrávöru.
„Olíuverð hefur t.d. hækkað verulega og umtalsverðar hækkanir hafa orðið á flutningskostnaði. Aðföng sem nýtt eru í iðnaði hafa t.d. hækkað umtalsvert af þessum sökum. Margt bendir til þess að hér sé um tímabundin áhrif að ræða. Verð á timbri hefur t.d. þegar lækkað umtalsvert eftir að hafa hækkað verulega frá upphafi Covid faraldursins. Réttast er að mati SI að peningastefnunefnd Seðlabankans sleppi þessum áhrifum á verðbólguna í gegn án aðgerða. Í ljósi verðbólguvæntinga er nefndin einnig í stöðu til þess,“ segir í greiningu samtakanna.
Þá segja samtökin einnig að það virðist nú vera að draga úr hækkun húsnæðisverðs, sem hafi verið vaxandi þáttur í verðbólgunni að undanförnu. Ljóst sé að áhrif vaxtahækkunarinnar í maí og lækkunar veðsetningarhlutfalls sé þar að hafa áhrif og muni áfram gera á næstunni.
Sérfræðingar Íslandsbanka spá óbreyttum vöxtum
Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd muni halda stýrivöxtum óbreyttum við vaxtaákvörðun sína á miðvikudaginn.
Í spánni frá bankanum, sem birt var á föstudag, segir að talið sé að aukin óvissa um efnahagsbatann á komandi mánuðum vegna bakslags í COVID-19 faraldrinum muni vega þyngra í huga nefndarmanna en þrálátari verðbólga og versnandi nærhorfur um verðbólgu.
„Það dregur líka úr ógninni sem peningastefnunni stafar af verðbólguþróuninni að kjölfesta langtíma verðbólguvæntinga virðist enn sem komið er tiltölulega stöðug við markmið bankans,“ sagði í greiningu bankans.