Prestar mega ekki lengur synja fólki um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar þeirra. Ályktun þess efnis var samþykkt án mótatkvæða á nýafstöðu Kirkjuþingi. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þetta er í fyrsta sinn þem Kirkjuþing samþykkir ályktun að opinberum embættismönnum þjóðkirkjunnar væri óheimilt að synja tveimur einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar þeirra. Fyrri hluta Kirkjuþings lauk í gær, og var síðari hluta frestað fram á næsta ár.
Mikið umræða var um hið svokallaða samviskufrelsi presta í aðdraganda Kirkjuþings, en það er hugtak sem notað hefur verið um frelsi presta til að neita að gefa saman samkynhneigð pör.
Kristján Valur Ingólfsson, starfandi biskup og vígslubiskup í Skálholti, sagði m.a. í september að samviskufrelsi sé stjórnarskrárvarinn réttur og meðal dýrmætustu mannréttinda. Þessu voru margir ósammála, meðal annars prestar og Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem segir að prestar geti ekki neitað samkynhneigðum pörum um hjónavígslu á þessum grundvelli.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, tjáði sig ekki um málið í aðdraganda þingsins, en áður hefur komið fram að hún vilji að prestar geti neitað að gifta pör af sama kyni.
Forveri hennar, Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup, tjáði sig hins vegar um þessi mál á Facebook. Hann er fylgjandi samviskufrelsi presta til að ákveða hvort þeir vilji gifta samkynhneigða eða ekki.
Málið hefur ratað í pólitíska umræðu að undanförnu. Þannig lögðu ungir sjálfstæðismenn til á nýafstöðnum landsfundi flokksins að lögum yrði breytt með þeim hætti að einungis sýslumenn hefðu leyfi til hjónavígslu. Þá skoðun er einnig að finna innan flestra annarra stjórnmálaflokka.