Á síðustu þremur mánuðum hefur Bernie Sanders, forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum sem sækist eftir útnefningu Demókrata, safnað nærri því jafn háum fjárhæðum í kosningasjóð sinn og vinsælasti frambjóðandinn, Hillary Clinton, hefur gert. Á tímabilinu safnaði Sanders um 26 milljónum dollara, jafnvirði ríflega 3.300 milljónum króna, samanborið við 28 milljón dollara sem runnu í sjóð Clinton.
Ágætt gengi Sanders í kosningabaráttunni hefur komið mörgum á óvart. Sanders er á vinstri væng pólitíska litrófsins í Bandaríkjunum og segist sjálfur vera sósíalisti. Á kosningafundum hefur hann dregið að fjölda fólks. Í umfjöllun Financial Times um málið í dag segir að upphæðirnar sem nú renna í kosningasjóði Sanders endurspegli auknar vinsældir hans. Það megi meðal annars sjá af lýðfræði þeirra sem styrkja framboðin. Mun algengara er að einstaklingar styrki Sanders heldur en fyrirtæki eða sterkefnaðir sjóðir auðugra fjölskyldna. Því er öfugt farið hjá Clinton.
En þrátt fyrir að Sanders njóti vinsælda hjá hópi Demókrata þá benda skoðanakannanir til að hann ógni ekki framboði Hillary Clinton, að minnsta kosti enn sem komið er. Nýjasta könnunin leiddi í ljós 18 prósentustiga forskot Hillary meðal kjósenda Demókrataflokksins. Um 43 prósent aðspurðra sögðust myndu kjósa Hillary samanborið við 23 prósent fylgi Sanders. Fylgi varaforseta Bandaríkjanna, Joe Biden, mældist tuttugu prósent í könnuninni. Hann hefur ekki tilkynnt um framboð en íhugar nú hvort hann blandi sér í slaginn.