Dilja Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði frá því í ræðustól Alþingis í dag að henni hefði verið brugðið er hún hlustaði á útvarpið á leið heim úr vinnu í gær og heyrði aðra hlustendur hringja inn í útvarpsþátt og lýsa yfir stuðningi við aðgerðir Rússlands í Úkraínu.
„Eins og það var jákvætt að hlusta á skilaboð þingmanna hér í gær var mér brugðið að hlusta á innhringingar landsmanna í útvarpsþætti á leið heim úr þinginu í gær. Þar hafði hver hlustandinn á fætur öðrum samband til þess að lýsa yfir stuðningi við aðgerðir Rússlands og kvarta yfir einhliða fréttaflutningi af atburðarásinni hérlendis,“ sagði Diljá Mist í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins.
Hvatti hún í kjölfarið þingmenn og stjórnvöld til þess að „taka þetta samtal við þjóðina„ og halda þeim sjónarmiðum á lofti sem heyrðust í þinginu í gær, um stuðning við fullveldi Úkraínu og fordæmingu á brotum Rússlands á alþjóðalögum.
„Það eiga enda fáar þjóðir meira undir því en við Íslendingar að brot á alþjóðalögum séu ekki liðin,“ sagði Diljá og bætti við að innrás Rússlands í fullvalda Evrópuríki væri sameiginlegt viðfangsefni Evrópuþjóða.
„Við höfum sofnað á verðinum og þrátt fyrir ógnartilburði og árásargirni Rússlands undanfarin ár hafa forystumenn í Evrópu verið máttlausir og jafnvel aukið á pólitísk erfið viðskipta- og hagsmunatengsl við rússnesk stjórnvöld. Meira að segja hérlendis heyrast raddir um að fleygja samstöðunni við evrópsk ríki fyrir viðskiptahagsmuni og það ekki bara í síðdegisútvarpi. Það væri algjör afleikur fyrir smáríkið Ísland sem á allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt af öðrum þjóðum,“ sagði Diljá Mist.
Ekkert mjálm, engin vettlingatök
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar gerði stuðning við Úkraínu og refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi einnig að umtalsefni í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins í dag.
Hún sagði að það skipti máli að Íslendingar væru skýrir í sinni afstöðu. „Með fullri virðingu finnst mér við þurfa að vera aðeins meira afgerandi í okkar afstöðu þegar kemur að þessu máli,“ sagði Þorgerður Katrín og bætti við að henni væri í huga afstaða Íslands gagnvart efnahagsþvingunum sem ákveðið var að ráðast í gegn Rússum eftir innlimun Krímskaga árið 2014.
„Mér fannst utanríkisráðherra vera svolítið einn á báti um tíma, því það var forystufólk innan þáverandi stjórnarflokka, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, auk annarra, auk yfirgengilegs lobbýisma af hálfu SFS og útgerða, útgerðarblaðsins, að taka frekar viðskiptahagsmuni fram yfir samstöðu þjóða. Viðskiptahagsmuni fram yfir hagsmuni okkar Íslendinga sem smáþjóðar af að verja landamæri okkar. Þá verðum við að gæta okkar og standa með lýðræðisþjóðum þegar við erum vitni að jafn miklum yfirgangi og Rússar eru að sýna núna gagnvart Úkraínu,“ sagði Þorgerður Katrín og bætti við:
„Þannig að mín skilaboð virðulegi forseti; ekkert mjálm, engin vettlingatök í nálgun Íslands gegn Rússum vegna þeirrar stöðu sem nú er komin upp í Úkraínu.“