Frá því að Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri tók við stöðunni hjá RÚV í lok janúar í fyrra, hefur sautján fastráðnum starfsmönnum félagsins verið sagt upp störfum. Magnús Geir hefur því rekið að meðaltali hart nær einn fastráðinn starfsmann hvern þann mánuð sem hann hefur verið í starfi.
Kjarninn sendi Andreu Róbertsdóttur, sem hefur gegnt stöðu mannauðsstjóra hjá RÚV síðan í apríl á síðasta ári, fyrirspurn þar sem óskað var eftir upplýsingum um hversu mörgum fastráðnum, lausráðnum og verktökum hjá félaginu hafi verið sagt upp í tíð núverandi útvarpsstjóra. Þá var óskað eftir að upplýsingarnar væru sundurliðaðar eftir starfsheitum og/eða deildum.
„Lifandi skipulagsheild“
Í skriflegu svari mannauðsstjóra RÚV við fyrirspurn Kjarnans segir: „Sautján fastráðnum starfsmönnum hefur verið sagt upp á því tímabili sem þú spyrð um. Meirihlutinn karlar, þvert á fyrirtækið.“
Þegar blaðamaður benti mannauðsstjóranum á að svar hennar við fyrirspurninni væri ófullnægjandi, svaraði hún: „Sem lifandi skipulagsheild með árstíðabundna álagstoppa er ekki við hæfi að senda lista yfir lausráðið starfsfólk og verktaka. [...] Að sundurliða eftir starfsheitum eða deildum - þá erum við komin inn á persónulegri upplýsingar.“
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur töluverðum fjölda verktaka og lausráðinna starfsmanna hjá RÚV, sem margir hverjir hafa verið á tímabundnum samningum til lengri og skemmri tíma, verið sagt upp störfum hjá félaginu á undanförnum mánuðum.
Skorað á stjórn RÚV að draga uppsagnir til baka
Síðustu fastráðnu starfsmennirnir til að taka poka sinn hjá RÚV voru dagskrárgerðarkonurnar Hanna G. Sigurðardóttir og Sigríður St. Stephensen. Stöllurnar voru á meðal reyndustu dagskrárgerðarmanna stöðvarinnar og hafa uppsagnir þeirra vakið hörð viðbrögð.
Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður RÚV og núverandi stjórnarmaður, hefur til að mynda gagnrýnt þær harðlega í fjölmiðlum og þá hafa þær orðið tilefni til heitra umræðna inn á lokaðri síðu starfsmanna RÚV á Facebook, samkvæmt heimildum Kjarnans, þar sem skorað hefur verið á stjórn RÚV að draga uppsagnirnar til baka.