Til að ná fram hallalausum fjárlögum í ár, 2014, og á næsta ári, 2015, var skuld ríkisins við Seðlabanka Íslands lækkuð um 26 milljarða króna án þess að greiðsla hefði borist fyrir. Sú aðgerð gerði það að verkum að milljarðarnir 26 teljast sem arðgreiðsla í ríkisreikningi 2014 og eykur þar með tekjur ríkisins um þá upphæð. Lækkun skuldarinnar gerir líka það að verkum að vaxtagreiðslur ríkisins lækka um 8,1 milljarð króna á árinu 2015.
Án þessarar breytingar yrðu fjárlögin, eins og þau voru kynnt í fjárlagafrumvarpinu, neikvæð um fjóra milljarða króna. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015. Fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti aðgerðina í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Arðgreiðslur hækkuðu um 45,8 milljarða
Í fjárlögum ársins 2014 var gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af arði og endurmati eignarhluta ættu að vera 11,1 milljarðar króna. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í síðustu viku, er hins vegar birt ný áætlun fyrir árið 2014. Þar er gert ráð fyrir að arðgreiðslur á þessu ári hækki um 45,8 milljarða króna og verði alls 56,9 milljarðar króna.
Ástæðan fyrir þessari gríðarlegu hækkun útskýrist meðal annars af því að Landsbankinn greiddi ríkissjóði 19,7 milljarða króna í arð á árinu en búist hafði verið verið að heildararðgreiðsla frá viðskiptabönkunum sem ríkið á hlut í yrði sex milljarðar króna. Stærsta breytingin varð hins vegar sú að arðgreiðsla frá Seðlabanka Íslands fór úr tveimur milljörðum króna í 32,5 milljarða króna. Þar skipti mestu liður sem kallast endurmat á skuldabréfi ríkissjóðs og jók tekjur ríkisins um 26 milljarða króna. Aðgerðin lækkaði einnig skuldahlutfall ríkisins.
Þessi aðgerð er útskýrð í fjárlagafrumvarpinu með þeim hætti að vegna áformaðra breytinga á viðmiðum „um eigið fé, arðgreiðslur og innkallanlegt eigið fé Seðlabanka Íslands gefst svigrúm til að lækka höfuðstól skuldabréfsins um 26 mia.kr. í 145 mia.kr. en það hefur þau áhrif að vaxtakostnaður af bréfinu verður lægri en ella hefði orðið, eða 8,1 mia.kr. á árinu 2015“.
Bókhaldsleg aðgerð
Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um málið og spurði hvort það væri réttur skilningur að höfuðstóll skuldabréfsins hefði verið lækkaður um 26 milljarða króna á nþess að nokkur greiðsla hefði borist. Í skriflegu svari ráðuneytisins segir: „Hér er annars vegar um að ræða skuldabréfið sem er eign Seðlabankans og hins vegar eigið fé Seðlabanka Íslands sem er skuld SÍ við ríkissjóð. Það sem á að gerast er að eigið fé Seðlabankans verður lækkað um 26 mia.kr. og andvirði þess notað til að greiða inn á skuldabréfið“.
Semsagt, eigið fé Seðlabankans var lækkað um 26 milljarða króna og það notað til að greiða niður skuld við ríkið, sem notaði það á móti til að greiða niður skuldabréf við Seðlabankann ,sem bókfærð var sem arður.