Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagði á það áherslu á kynningarfundi vaxtaákvörðunar í dag að peningastefnunefnd myndi áfram bregðast við verðlagshækkunum og launaskriði með hækkun stýrivaxta. Vextir Seðlabankans voru hækkaðir í morgun um 0,5 prósentur, í takt við spár greiningardeilda bankanna. Helsti rökstuðningur peningastefnunefndar Seðlabankans fyrir hækkun vaxta eru versnandi verðbólguhorfur vegna launahækkana í tengslum við gerða kjarasamninga og boðuð útgjöld stjórnvalda til þess að liðka fyrir undirritun kjarasamninga.
Már og Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, sátu fyrir svörum eftir fundinn og voru meðal annars spurðir að því hvað þyrfti að gerast á næstu mánuðum svo peningastefnunefnd myndi ekki hækka stýrivexti enn frekar. Í yfirlýsingu nefndarinnar er það sagt virðast „einsýnt að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið“.
Már sagði stöðu mála í dag slíka að litlar líkur væru á að vextir myndu ekki hækka frekar. Það muni þó alltaf ráðast af framvindunni. „Það er mikilvægt að allir aðilar máls átti sig á því að eftir því sem þetta fer meira út í verðlagi, því meira hækkum við vexti. Því meira sem launaskrið verður, því meira hækkum við vexti,“ sagði Már. Hann bætti því við að ef verðbólga myndi ekki aukast á næstunni þá væri sögulegt samband ekki lengur að halda.
Peningaprentvélin í bankanum virkar
Már og Arnór voru einnig spurðir um þá fjármuni sem renna til ríkisins í formi stöðugleikaframlags eða stöðugleikaskatts, í tengslum við losun gjaldeyrishafta. Már sagði alla hafa tekið undir það sjónarmið að ekki megi ráðstafa þeim fjármunum sem fást þannig að það raski stöðugleika. „Ef krónurnar eru notaðar og dælt út í hagkerfið þá virkjar það peningamagn sem ekki er virkt núna,“ sagði seðlabankastjóri. Það myndi að öllu jöfnu rýra þær krónur sem nú eru í umferð. Allt eins gæti Seðlabankinn dælt út peningum og aukið peningamagn í umferð. „Við erum með peningaprentvél hérna í bankanum og hún prentar ansi hratt.“