Seðlabanki Evrópu samþykkti í gær að leggja Grikkjum til fé til þess að halda fjárhag bankakerfis landsins réttu megin við núllið, og halda um leið lífi í efnahagskerfi landsins, sem rambar nú á barmi hruns. Valdis Dombrovskis, varaforseti Evrópuráðsins, sagði í samtali við fjölmiðla í gær, að neyðarlán hefði verið veitt vegna áhlaups á gríska banka, en bæði almenningur í Grikklandi og fyrirtæki sömuleiðis hafa á undanförnum vikum tekið út úr þeim milljarða evra.
Ekki hefur verið gefið upp nákvæmlega hversu miklir fjármunir hafa farið úr bönkunum, en talið er að um þrír milljarðar evra hafi farið úr bönkunum í síðustu viku, samkvæmt fréttum New York Times.
Grísk stjórnvöld reyna nú allt til þess ná samningum við lánadrottna sína áður en skuldir ríkissjóðs Grikklands gjaldfalla, en hinn 30. júní næstkomandi eru 1,6 milljarðar evra á gjalddaga og samtals eru 7,2 milljarðar evra á gjalddaga í sumar, sem fyrirséð er að stjórnvöld verða að ná samkomulagi um.
Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa lagt á það áherslu að Grikkir standi við skuldbindingar sínar í samræmi við fjármögnunaráætlun upp á samtals 240 milljarða evra, sem gengið frá frá árið 2012. Í henni fólust meðal annars miklar hagræðingaraðgerðir í Grikklandi, og þar með talið uppsagnir á þúsundum opinberra starfsmanna.
Stjórnvöld, með Alexis Tsipras forsætisráðherra í broddi fylkingar, hafa ekki viljað fara út í hagræðingaraðgerðirnar og vilja endurskoða áætlunina sem unnið hefur verið eftir í þrjú ár. Ekkert hefur hins vegar gengið í samningaviðræðunum.