Már Guðmundsson seðlabankastjóri greindi frá því í dag að á næstu misserum verði kynntar til sögunnar leiðir sem leyfi bankanum að hafa áhrif á vaxtamunaviðskipti, til dæmis með skattlagningu eða bindiskyldu. Þessum stýritækjum verður komið á áður en flæði fjármagns verður frjálst án fjármagnshafta. Að sögn seðlabankastjóra mun þetta auka bit peningastefnunnar en nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir. Boltinn er hjá Seðlabankanum og búast má við fréttum af þessu á næstu mánuðum, sagði Már.
Ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti og ný efnahagsspá Seðlabankans var kynnt á fundi í Seðlabankanum klukkan tíu í morgun. Áður en Már og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, tóku við spurningum úr sal þá greindi seðlabankastjóri frá áformum bankans um bindiskyldu eða skatt á þá erlendu aðila sem kaupa innlend skuldabréf, svokölluð vaxtamunarviðskipti.
Már var spurður nánar um fyrirætlanir bankans og svaraði hann því í fyrstu til að á þessari stundu ætti ekki að dvelja of lengi við málið. Hann bætti því þó við að óvíst sé hvort um verði að ræða skattlagningu á fjármagnsflæði erlendra aðila í skuldabréfaviðskiptum. Ókostir þess séu augljósir þar sem peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ekki vald til að stýra skattinum á hverjum tíma. „Kannski þarf skatt að lokum til að styðja við tækið, en það er ljóst hvar skattlagningarvaldið er,“ sagði Már og vísaði til Alþingis. „Þess vegna höfum við skoðað í hvaða mæli hægt sé að beita sérstökum bindingum,“ sagði Már.
Spurður hvort það sé stefna bankans að eyða öllum vaxtamun eða hvort vaxtamunarviðskipti eigi að vera hluti af virkum gjaldeyrismarkaði, sagði Már að það ráðist af aðstæðum hverju sinni. „Við getum hugsað okkur aðstæður þar sem það er talið nauðsynlegt um hríð [að eyða öllum vaxtamun við útlönd].“ Það ráðist aftur á móti af þjóðarbúskapnum, fjármálastöðugleika og aðhaldi peningastefnunnar. Allt þetta sé háð frekari stefnumótun, ekki aðeins innan Seðlabankans, heldur einnig hvernig íslensk stjórnvöld sjái þátttöku Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum til lengdar.
Vaxtamunarviðskiptin snúa aftur
Vaxtarmunarviðskipti voru afar vinsæl hérlendis fyrir hrun. Vaxtakjör á Íslandi voru mun hærri en í flestum öðrum ríkjum og til landsins streymdu hundruðir milljarða króna sem fjárfest var í skuldabréfum með háum vöxtum.
Viðskipti sem þessi hafa legið niðri og ekki þótt ákjósanleg af fjárfestum erlendis, ekki síst vegna gjaldeyrishafta og óvissu í efnahagsmálum, allt þar til nýverið. Eins og áður eru vextir á Íslandi mun hærri en víða annars staðar. Á síðustu mánuðum hafa erlendir aðilar keypt löng ríkisskuldabréf fyrir samtals um átta milljarða króna. Upphæðin er lág í samanburði við stærð skuldabréfamarkaðarins og umsvif vaxtamunarviðskipta á árum áður, en viðskiptin eru engu að síður vísir að upphafi frekari vaxtamunarviðskipta hér á landi.