Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka meginvexti bankans um 0,25 prósentustig. Vextirnir, sem námu einu prósentu fyrir, verða því 1,25 prósent. Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar sem var gefin út í morgun.
Samkvæmt yfirlýsingunni hafa efnahagshorfur batnað frá fyrri spá bankans. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála eru horfur á 4% hagvexti í ár sem er 0,9 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí. Vegur þar þungt örari fjölgun ferðamanna í sumar en gert var ráð fyrir. Atvinnuleysi hefur hjaðnað meira en spáð var þótt það sé enn mikið og slakinn í þjóðarbúskapnum minnkað hraðar.
Þó bætir nefndin við að nokkur óvissa sé fram undan vegna útbreiðslu Delta-afbrigðis veirunnar. Hún nefnir einnig að áhrif tímabundinna framboðstruflana erlendis gætu varað lengur en áður var talið, en þær hafi hækkað kostnað við að framleiða vörur um allan heim.
Nefndin segir verðbólguþrýstingur virðast fara minnkandi, einkum ef litið er til undirliggjandi verðbólgu. Samkvæmt spám Seðlabankans séu þó horfur á að hún hjaðni hægar en gert var ráð fyrir í maí. Búist er við því að hún haldist yfir fjórum prósentum út árið en verði komin í markmið bankans á seinni hluta næsta árs.
Seðlabankinn hækkaði síðast vexti í maí síðastliðnum, þá úr 0,75 prósentum upp í 1 prósent. Þar voru svipaðar ástæður nefndar fyrir vaxtalækkunina – þrálát verðbólga og sterkur efnahagsbati – en verðbólgan var þá sögð vera tilkomin að hluta til vegna hækkandi húsnæðisverðs, framboðstruflana í hagkerfinu og gengissigs krónunnar.