Verðbólga, sem mælist nú 1,8%, hefur verið undir markmiði í átta mánuði samfleytt og horfur eru á minni verðbólgu næstu mánuði en spáð var í ágúst. Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað fyrr í vikunni að halda vöxtum óbreyttum og eru stýrivextir nú sex prósent. „Verðbólguvæntingar hafa þokast nær markmiði að undanförnu en langtímavæntingar eru enn nokkuð yfir því. Gjaldeyrisinnstreymi hefur haldið áfram en gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans hafa stuðlað að stöðugleika krónunnar,“ segir í fréttatilkynningu sem Seðlabankinn sendi frá sér í tilefni af því að vöxtum var haldið óbreyttum fyrr í vikunni.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri lét hafa eftir sér eftir á fundi þegar vaxtaákvarðanir voru kynntar að viðskipti seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hefðu stuðlað að meiri stöðugleika og þau hefðu komið í veg fyrir hækkun á gengi krónunnar. Á þessu ári hefur seðlabankinn keypt gjaldeyri umfram það sem hann hefur selt. Umfangið er um 86 milljarðar króna. Í ljósi þess að gjaldeyrisinnstreymi hefur aukist hratt þá hefur þetta stuðlað að því að krónan hefur haldist veikari. Ljóst er að töluvert miklu munar í þessum efnum og má búast við að gengi krónunnar væri mun sterkara ef ekki hefði komið til þessara viðskipta seðlabankans. „Aðhald peningastefnunnar hefur aukist meira en áður var búist við samfara hraðari hjöðnun verðbólgu og lækkun verðbólguvæntinga. Nokkur óvissa er þó um túlkun haggagna sakir breyttra uppgjörsaðferða þjóðhagsreikninga sem eykur tímabundið vandann við mat á æskilegu taumhaldi peningastefnunnar. Kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði gætu eftir sem áður leitt til aukins verðbólguþrýstings og orðið til þess að nafnvextir Seðlabankans þyrftu að hækka,“ segir í tilkynningu.
Hagvöxtur mældist 0,6 prósent á fyrri helmingi ársins, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Spár seðlabankans gera ráð fyrir ríflega þrjú prósent hagvexti á þessu ári.