Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5 prósent. Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans.
Það segir að samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands hafi hagvöxtur verið nokkuð minni á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs en spáð hafði verið í nóvemberhefti peningamála. Kjarninn greindi frá niðurstöðum Hagstofunnar í byrjun desember, en þar kom fram að hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins hafi reynst 0,5 prósent. Seðlabankinn spáði því að hagvöxtur á Íslandi árið 2014 yrði um þrjú prósent.
Bankinn gerir ráð fyrir minni hagvexti en hann spáði
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans segir að vísbendingar séu um að bráðabirgðatölur Hagstofunnar kunni að fela í sér vanmat, en í uppfærðri spá Seðlabankans sé eigi að síður gert ráð fyrir að hagvöxtur í fyrra hafi verið minni en bankinn spáði í nóvember, eða 2 prósent í stað 2,9 prósenta. Hins vegar sé búist við meiri hagvexti í ár en spáð var eða 4,2 prósentum í stað 3,5 prósenta.
Þá kemur fram að verðbólga hafi hjaðnað frá síðustu vaxtaákvörðun, í desember og janúar hafi hún mælst aðeins 0,8 prósent, og útlit fyrir að verðbólga verði undir tveimur prósentum fram á næsta ár, sem sé minni verðbólga en spáð hafi verið í nóvember. Þar vegi þyngst lítil alþjóðleg verðbólga og stöðugt gengi íslensku krónunnar sem vegi á móti áhrifum töluverðra launahækkana innanlands.
Peningastefnunefnd Seðlabankans segir efnahagshorfur að ýmsu leyti tvísýnni en oft áður. Lækkun eldsneytisverðs hafi haft mikil áhrif á verðlagsþróun bæði á Íslandi og á heimsvísu, en óvíst sé hve langvinn þessi þróun verði. Launavöxtur hafi verið töluverður á Íslandi, ólíkt flestum viðskiptalöndum, og vaxandi óróa gæti á vinnumarkaði sem gæti teflt í tvísýnu stöðugleikanum sem áunnist hafi.