Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir að vöruútflutningur haldist nær óbreyttur frá því sem bankinn hefur áður spáð, þrátt fyrir mögulegra áhrifa innflutningsbanns sem rússnesk stjórnvöld tilkynntu um í síðustu viku. Í nýrri efnahagsspá sem Seðlabankinn birti í dag í Peningamálum, ársfjórðungslegu riti bankans, segir að útlit sé fyrir svipaðan vöxt útflutnings sjávarafurða og álafurða á þessu ári og næstu tveimur árum. Líklegast hefðu áhrif bannsins verið meiri ef það hefði komið til í fyrra, vegna erfiðara efnahagsástands í Rússlandi í ár.
„Horfur um vöruútflutning eru nær óbreyttar fyrir þetta og næstu tvö ár þar sem útlit er fyrir svipaðan vöxt útflutnings sjávarafurða og álafurða. Tekið er tillit til mögulegra áhrifa innflutningsbanns sem rússnesk stjórnvöld tilkynntu fyrir skömmu. Gert er ráð fyrir að frystur uppsjávarfiskur sem seldur var til Rússlands á síðasta ári fari í bræðslu en við það lækkar útflutningsverðmætið um 8-10 ma.kr. Á móti kemur að framleiðslu- og útgerðarkostnaður mjöls og lýsis er lægri en vegna frystingar. Líklegt er að áhrif viðskiptabannsins verði minni en þau hefðu verið ef viðskiptabannið hefði verið sett á í fyrra vegna erfiðara efnahagsástands í Rússlandi í ár og hefur útflutningur til Rússlands það sem af er ári verið töluvert minni en á síðasta ári. Einnig er óvíst hvernig til tekst við að afla nýrra markaða fyrir frystar afurðir uppsjávarfiska,“ segir um vöruútflutning í Peningamálum.
Því er spáð að útflutningur aukist um tæplega sjö prósent í ár frá fyrra ári og að hann verði borinn uppi af þjónustuútflutningi, í krafti mikillar fjölgunar ferðamanna. Engu að síður verði frmalag utanríkisviðskipta til hagvaxtar neikvætt í ár.
„Þrátt fyrir mikinn vöxt útflutnings í ár eru horfur á að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði neikvætt. Gert er ráð fyrir að innflutningur vöru og þjónustu muni vaxa um 12½% í ár sem er 1½ prósentu meira en áætlað var í maíspánni. Áfram er gert ráð fyrir að innflutningur verði drifinn af flutningatækjum (skipum, flugvélum og fólksbílum) og neysluvörum í takt við kröftugan vöxt innlendrar eftirspurnar og áframhaldandi fjölgun ferðamanna til landsins. Þótt talið sé að heldur hægi á vexti innflutnings á næstu tveimur árum, verður hann enn töluverður. Það ásamt minni vexti útflutnings leiðir til þess að nú er búist við að framlag utanríkisvið- skipta til hagvaxtar verði heldur neikvæðara en spáð var í maí,“ segir í spánni.