Gjaldeyriskaup Seðlabanka Íslands í júlí voru þau mestu í einum mánuði frá upphafi. Alls keypti bankinn 265 milljónir evra á millibankamarkaði í mánuðinum. Hlutdeild hans á millibankamarkaði var ríflega 61 prósent. Til samanburðar keypti Seðlabankinn 201 milljón evra á millibankamarkaði í júní. Það var þá langstærstu gjaldeyriskaup bankans á einum mánuðum.
Frá þessu greinir greiningardeild Íslandsbanka í dag. Miðað við skráð gengi krónu gagnvart evru í dag eru 265 milljónir evra jafnvirði um 39 milljarða króna.
Í umfjöllun greiningar Íslandsbanka kemur fram að það sem af er ári hafi Seðlabankinn keypt 816 milljónir evra á millibankamarkaði og bætt við gjaldeyrisforða sinn. Það er 140 prósent aukning frá síðasta ári þegar bankinn keypti 340 milljónir evra á fyrstu sjö mánuðum ársins. Ríflega helmingur kaupanna í ár er gerður í júní og júlí. Það endurspeglar mikið hreint gjaldeyrisflæði til landsins í þessum mánuðum. Mikill vöxtur ferðaþjónustu skýrir stóran hluta innflæðisins.
Fleira kemur þó til, segir greining Íslandsbanka. „Vísbendingar eru um að hreint innflæði vegna beinnar fjárfestingar gæti verið að vaxa, enda skriður að komast á ýmis fjárfestingarverkefni í iðnaði og dæmi eru einnig um sölu innlendra fyrirtækja fyrir gjaldeyri. Þar að auki bendir ýmislegt til innflæðis tengt verðbréfafjárfestingum það sem af er sumri.“ Útlit er fyrir áframhaldandi innflæði gjaldeyris á næstunni.
Forðinn stækkar en greiddu niður erlendar skuldir
Greining Íslandsbanka bendir á að þrátt fyrir gjaldeyriskaup Seðlabankans í júlí er gjaldeyrisforðinn í heild að öllum líkindum minni í dag en hann var í lok júní. Þá nam jafnvirði hans um 605 milljörðum króna. Ástæðan er úttekt ríkissjóðs af gjaldeyrisreikningi sínum í Seðlabankanum til að standa straum af kaupum á eigin skuldabréfum í Bandaríkjadollurum. „Þau bréf voru raunar gefin út til þess að afla gjaldeyris fyrir forða Seðlabankans, og má því segja að verið sé að skila að hluta til skuldsetta hluta gjaldeyrisforðans með endurkaupunum á sama tíma og hreinn gjaldeyrisforði stækkar,“ segir í greiningu bankans.
Fjallað var um niðurgreiðslu skuldanna í Kjarnanum í gær. Ríkssjóður keypti í fyrradag eigin skuldabréf, útgefin árið 2011 í dollurum, að andvirði 400 milljónir króna að nafnvirði. Með kaupunum grynnkar á erlendum skuldum ríkissjóðs, en samkvæmt svörum Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans þá notaði ríkissjóður innstæður sínar í erlendum gjaldeyri hjá Seðlabankanum til þess að greiða fyrir endurkaupin. Gjaldeyrisforðinn lækkar því sem nemur endurkaupunum.