Seðlabanki Íslands hefur ekki safnað tölulegum upplýsingum um viðskipti eða eignir aðila hér á landi í rafmyntum og hefur heldur ekki vitneskju um það hversu mikið fé hefur komið inn í íslenskt hagkerfi sem hagnaður vegna viðskipta með rafmyntir.
Þetta kemur fram í svörum frá Seðlabankanum við fyrirspurn Kjarnans um rafmyntir og sýndarfé, en lögum samkvæmt eru innlendir aðilar sem starfa sem þjónustuveitendur viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla eða þjónustuveitendur stafrænna veskja skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og starfa sem slíkir undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
Kjarnanum flaug því í hug að Seðlabankinn hefði einhverja vitneskju um umfang rafmyntaeignar eða -viðskipta innlendra aðila, eða hefði gert tilraun til að leggja mat á það, en svo er ekki.
Bankinn hefur hins vegar ítrekað komið á framfæri viðvörunum til almennings um sýndarfé, síðast í mars á þessu ári, þar sem vakin var athygli á ítrekuðum áminningum evrópskra eftirlitsstofnana um að viðskipti með sýndarfé gætu verið mjög áhættusöm og að þau fylgdu lögmálum spákaupmennsku.
Þrjú fyrirtæki í rafmyntabransanum hérlendis
Þrír innlendir aðilar eru skráðir hjá Seðlabankanum sem svokallaðir þjónustuveitendur viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla hér á landi, en enginn skráður þjónustuveitandi stafrænna veskja.
Fyrirtækin þrjú í fyrri flokknum heita Myntkaup, Bálkar Miðlun og Skiptimynt. Samanlögð velta þessara þriggja fyrirtækja árið 2020 nam tæpum 24 milljónum króna og högnuðust þau samanlagt um rúmar 18 milljónir á starfsemi sinni á því sama ári, samkvæmt ársreikningum félaganna sem að baki þeim standa.
Fylgst almennt með þróun fjártækni
Kjarninn sendi Seðlabankanum nokkrar spurningar til þess að kanna hvort og hvernig Seðlabankinn væri að fylgjast með rafmyntageiranum og í svari bankans segir að bankinn fylgist almennt með þróun fjártækni, þ.m.t. þróun fjölmargra rafmynta, þó að tölulegum upplýsingum um viðskipti eða eignir af þessu tagi sé ekki safnað, eins og áður kom fram.
Í svari bankans er rakið að skráningar- og eftirlitshlutverk Seðlabankans sé í samræmi við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þjónustuveitendurnir þrír sem skráðir eru hjá Seðlabankanum eru tilkynningaskyldir og hafa því ákveðnar skyldur samkvæmt áðurnefndum lögum, meðal annars þá skyldu að tilkynna til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að framangreindir aðilar fari að ákvæðum laganna og þeim reglugerðum og reglum sem eru settar samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem gilda um starfsemi eftirlitsskyldra aðila.
Nánar tiltekið felst eftirlit Seðlabanka Íslands í því að „tryggja að tilkynningarskyldir aðilar uppfylli kröfur laga [um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka] og reglugerða og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra“
Það þýðir með öðrum orðum að Seðlabankinn á að hafa eftirlit með því hvort fyrirtækin sem í þessum bransa starfa framkvæmi áhættumat á rekstri sínum, kanni áreiðanleika upplýsinga um viðskiptavini, eftir atvikum uppruna fjármagns, viðhafi reglubundið eftirlit með samningssambandi og tilkynni til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu ef grunur er um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands fer hvorki með fjárhagslegt eftirlit með viðkomandi skráningarskyldum aðilum né annars konar eftirlit umfram það sem að ofan greinir.