Haraldur Pálsson framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags segir, í erindi sem hann sendi fyrir hönd félagsins til fjárlaganefndar þingsins, að aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra hafi staðfest við sig, bæði í samtölum og smáskilaboðum, að ÍBV ætti að fá 100 milljóna króna framlag sem samþykkt var í fjáraukalögum ársins 2021 til þess að bæta íþróttafélögum tekjutap vegna viðburðahalds.
„Forsvarsmönnum félagsins brá því heldur betur þegar í ljós kom að einungis 40.000.000 kr bárust félaginu þann 22. apríl 2022 frá mennta- og barnamálaráðuneytinu,“ segir í erindi framkvæmdastjórans, sem er sent til þess að falast eftir frekari styrk til íþróttafélagsins við afgreiðslu fjárlaga í ár.
Í erindinu er fjárhagsstaða félagsins sögð erfið í kjölfar þess að Þjóðhátíðir áranna 2020 og 2021 voru blásnar af sökum samkomutakmarkana í tengslum við kórónuveirufaraldurinn, en félagið sjálft metur tjón sitt af þessum völdum vel yfir 300 milljónir króna heildina.
Haraldur rekur að við úrvinnslu fjáraukalaga fyrir árið 2021 hafi fjárlaganefnd borist tillaga að styrk, sem veita átti íþrótta- og æskulýðsfélögum vegna tekjumissis ýmissa viðburða sem fella þurfti niður með skömmum fyrirvara þegar samkomutakmarkanir tóku aftur gildi. Segir hann að ríkisstjórnin hafi haft þann vilja að 60 milljónum króna yrði veitt í málefnið, og að skilyrt væri að hið minnsta 40 milljónir króna færu óskiptar til ÍBV.
„Fjárlaganefnd tók málið fyrir og mat stöðuna þannig, byggt á fyrirliggjandi gögnum, að hækka ætti framlagið í 100 milljónir króna og halda hlutföllunum um lágmarkshlut ÍBV óbreyttu eða 2/3. Ekkert var því til fyrirstöðu að ef ekkert annað félag myndi sækja í þennan sjóð á sömu forsendum og að ÍBV fengi þannig allan sjóðinn, enda höfðu aðgerðir stjórnvalda orðið til þess að félagið hafi orðið af 230 milljónum króna hið minnsta undanfarin tvö árin,“ segir í erindi Haraldar.
Hann vísar svo til nefndarálits fjárlaganefndar um fjáraukalögin í fyrra, þar sem gerð tillaga um 100 milljóna króna framlag til íþrótta- og æskulýðsfélaga vegna tekjumissis.
„Ýmsa viðburði þurfti að fella niður með skömmum fyrirvara þegar samkomutakmarkanir tóku aftur gildi, viðburði sem eru mikilvægir fjáröflunarviðburðir sem ekki hefur reynst unnt að halda og því er lagt til að unnt verði að sækja um styrki vegna tekjumissis. Sem dæmi má nefna að þjóðhátíð í Vestmannaeyjum var felld niður annað árið í röð með skömmum fyrirvara,“ sagði í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar.
Engin önnur félög hafi sótt um á þessum forsendum
Tillaga meirihlutans um þetta var svo vissulega samþykkt á Alþingi og 100 milljónir króna færðar í málefnið. Ljóst er þó að ÍBV telur sig ekki hafa fengið allt sem félagið átti að fá af þessari upphæð.
Haraldur segir í erindi sínu að eftir „ótal símtöl og vandræðalega mikla eftirgrennslan kom loksins til þess að ráðuneytið greiddi félaginu úr umræddum sjóð“ í apríl síðastliðnum og að svo hafi félagið fengið staðfest í „ítrekuðum fyrirspurnum um hvort önnur félög hefðu sótt í þennan sjóð á umræddum forsendum þeim sem koma fram í áðurnefndu nefndaráliti,“ að svo væri ekki.
„Einnig hafði aðstoðarmaður ráðherra staðfest að félagið fengi 100 milljónir króna úr sjóðnum bæði í samtölum og í smáskilaboðum. Forsvarsmönnum félagsins brá því heldur betur þegar í ljós kom að einungis 40.000.000 kr bárust félaginu þann 22. apríl 2022 frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu,“ segir í erindi Haraldar.