Staðhæfingar atvinnurekenda um að ekkert svigrúm sé til launahækkana er óvenju langt frá veruleikanum í komandi kjarasamningum, líkt og miklar launahækkanir forstjóra fyrirtækja hérlendis og arðgreiðslur til hluthafa sýna. Þetta skrifar Stefán Ólafsson, prófessor emeritus í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Víða veisla í atvinnulífinu
Samkvæmt Stefáni eru þjóðhagsspár bæði Seðlabankans og Hagstofu bjartar og að gera mætti ráð fyrir uppsveiflu þrátt fyrir að eitthvað gæti hægt á henni vegna stríðsins í Úkraínu. Hann segir að Lífskjarasamningurinn árið 2019 hafi verið gerður við óhagstæðari skilyrði, þar sem þá hafi verið búist við minnkandi hagvexti.
Að undantekinni ferðaþjónustunni, sem gæti þó lagast hratt þegar ferðamönnum fer að fjölga á ráði, segir Stefán að staða flestra fyrirtækja sé nú með miklum ágætum. Því til stuðnings bendir hann að búist sé við metári í arðgreiðslum í ár, auk þess sem stjórnendur fyrirtækjanna hafi hækkað mikið í launum. „Það er því víða veisla í atvinnulífinu,“ bætir hann við.
Stefán segir meðallaun forstjóra í skráðum fyrirtækjum hafa hækkað um 8,5 prósent á milli ára, sem sé vel umfram hækkanir á almennum vinnumarkaði. Alls hækkuðu mánaðarlaun þeirra um 444 þúsund krónur á mánuði í fyrra, á meðan almenn hækkun launafólks hafi verið tæp 16 þúsund krónur á ári.
Þar að auki bætir Stefán við að stjórnendur hafi verið að taka stærri hluta launa sinna sem bónusa og kaupréttarsamninga, en algengt sé að bónusar geti bætt allt að fjórðungi ofan á árslunin og að kaupréttir geti skilað tugmilljörðum í hagnaði.
Launahækkanir til lágtekjufólks og sem vörn gegn verðbólgu
Stefán ber einnig saman þróun ráðstöfunartekna eftir tekjutíundum á síðustu áratugum, en þar segir hann blasa við að hagur tekjuhæstu tíundarinnar hafi batnað mest, bæði í góðærinu fyrir hrun og í efnahagsuppsveiflunni eftir árið 2012. Lífskjarasamningurinn hafi bætt hlut þeirra lægst launuðu, en einungis að hluta, og því sé ástæða til að ganga enn lengra í komandi kjarasamningum með krónutöluhækkunum.
Samkvæmt Stefáni er einnig mikilvægt að hækka þurfi laun í komandi kjarasamningum til að vinna gegn hækkandi verðbólgu, sem sé að stærstum hluta vegna misheppnaðrar hagstjórnar á sviði húsnæðismála.
Aðrar leiðir mögulegar
Ef hlífa á fyrirtækjum við miklum launahækkunum segir Stefán að stjórnvöld geti einnig bætt kjör lægri tekjuhópa á aðra vegu. Sem dæmi um slíkt nefnir hann auknar millifærslur úr velferðarkerfinu – þ.e.a.s. hærri barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur – en samkvæmt Stefáni hafa þessar bótagreiðslur veikst verulega á síðustu árum og alls ekki haldið í við þarfir.
Stefán bendir á að barnabætur á Íslandi séu langt fyrir neðan það sem almennt er í Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu. Einnig hafi vaxtabætur því sem næst horfið á síðustu átta árum, sem gerir eignamyndun í íbuðarhúsnæði hægari og eykur þannig misskiptingu í eignum. Þar að auki segir Stefán að draga þurfi úr „ofurskerðingum“ lífeyris í almannatryggingu með umtalsverðri hækkun frítekjumarks.
Hægt er að lesa grein Stefáns í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.