Í nýjasta riti Peningamála, sem birt var á miðvikudag, er sérstök rammagrein þar sem spáð er í hvað gerist ef komandi kjarasamningar feli í sér meiri launahækkanir en nú sé gert ráð fyrir í grunnspá Seðlabankans.
Í rammagreininni segir að núgildandi kjarasamningar, sem undirritaðir voru í apríl 2019, hafi skilað launafólki því að raunlaun hafi heilt yfir hækkað um 7,2 prósent og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi hækkað um ríflega 13 prósent frá undirritun og fram á mitt ár 2022. Raunlaun hafa hins vegar gefið eftir undanfarið og Seðlabankinn telur að ætla megi að þau hafi hækkað minna en lagt var upp með við undirritun samninganna þar sem verðbólga hefur verið langt umfram spár. „ Ummæli forystumanna verkalýðsfélaga undanfarið virðast m.a. snúa að því að vinna upp þá hækkun raunlauna sem á vantar. Í ljósi þess að spenna er á vinnumarkaði og kjölfesta verðbólguvæntinga hefur veikst gætu laun því hækkað nokkru meira á spátímanum en núverandi grunnspá gerir ráð fyrir.“
Dregur upp svarta mynd ef endurheimta eigi raunlaunastig
Til að kanna hver áhrif þeirra launahækkana gætu orðið notaðist Seðlabankinn við hið svokallaða DYNIMO-líkan sitt og gerði þar ráð fyrir að nafnlaun hækki um liðlega fimm prósentustig meira á næsta ári „í þeirri viðleitni að endurheimta sambærilegt raunlaunastig og var í upphafi ársins, áður en verðbólgan tók að grafa undan kaupmætti.“
Þetta telur Seðlabankinn að muni hækka jaðarkostnað fyrirtækja töluvert meira en í grunnspánni sem leiði til þess að þau bregðast „bæði við með því að ganga á hagnaðarhlutdeild sína og hagræða í rekstri, m.a. með því að stytta vinnutíma starfsfólks eða með uppsögnum. Það dugar þó ekki til samkvæmt líkaninu og því bregðast þau einnig við með því að hækka afurðaverð sitt.“
Afleiðingin yrði meðal annars hægari vöxtur á einkaneyslu, hagvöxtur dregst saman, verðbólga verður meiri og stýrivextir hærri.
Sá minnsti frá 2002 utan hamfaratíma
Raunar segir Seðlabankinn að hagvöxtur á næsta ári, sem yrði 1,75 prósentustigum minni á árinu 2023, yrði sá minnsti hérlendis síðan 2002 ef frá eru talin samdráttarárin í kjölfar bankahrunsins og kórónuveirufaraldursins.
Seðlabankinn segir að þrátt fyrir lakari hagvaxtarhorfur yrði verðbólga samt sem áður meiri á spátímanum, sem nær út árið 2025, en samkvæmt fyrirliggjandi grunnspá. Til að tryggja að verðbólgan verði í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans til lengri tíma þyrfti auk þess að hækka stýrivexti enn frekar, en þeir hafa nú þegar verið hækkaðir tíu sinnum í röð og standa í sex prósentustigum.