„Ég leyfi mér að fullyrða að fasteignakaup með íslenskri krónu séu hrein áhættufjárfesting.“ Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Spurði hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra meðal annars hvort hún væri sammála greiningu seðlabankastjórans á því hvernig hægt væri að vinna gegn verðbólgunni.
Hóf hann mál sitt á að segja að hann hefði talsverðar áhyggjur þessa dagana. „Áhyggjur mínar snúa fyrst og fremst að því hvaða þróun er að verða í verðbólgu hér á landi. Verðbólga hefur ekki verið hærri í átta ár um þessar mundir og hefur verið langt umfram væntingar spáaðila og langt umfram það sem Seðlabankinn hefur búist við í sínum spám.“
Benti hann á að seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, hefði sagt í viðtali í síðasta mánuði að verðbólgan stafaði að miklu leyti af veikingu gengisins á síðasta ári, en nú hækkaði gengið á ný – og vonaðist hann til að ná tökum á verðbólgunni aftur með lægra verðlagi í verslunum. „Það er þó ljóst að inn í smásöluverðið reiknast alls konar kostnaður, til dæmis flutningskostnaður, sem hefur hækkað verulega, verð á hrávöru, og síðan hefur verði samið um margvíslegar kjarabætur. Það er spurning hvort ekki blasi við að það sé ansi þung byrði að leggja það á verslunina í landinu að bregðast við þessum verðbólguþrýstingi öllum, eins og Seðlabankinn kallar eftir,“ sagði Jón Steindór.
Spurði hann forsætisráðherra hvort hún væri sammála þessari greiningu seðlabankastjórans á því hvernig Íslendingar gætu unnið gegn verðbólgunni. Væri forsætisráðherra sammála því að verðlag í verslunum yrði að lækka, annars þyrfti að grípa til sértækra aðgerða. „Liggur ábyrgðin þarna? Blasir ekki við að hinar sértæku aðgerðir, sem ella þarf að grípa til, eru hækkun vaxta?“ spurði hann.
Fara þarf yfir stöðu mála á fasteignamarkaðinum
Katrín tók undir með þingmanninum um að hækkun verðbólgu væri áhyggjuefni. „Þegar skoðað er hvað leiðir hækkun verðlags um þessar mundir er það húsnæði og matvara. Hins vegar er rétt að almennt gera spár ráð fyrir því að verðbólga muni hjaðna þegar líður á árið og auðvitað ætti styrking krónunnar að styðja við þá þróun,“ sagði hún.
„Hvað er hægt að gera? Háttvirtur þingmaður nefnir að mikið sé á verslunina lagt að hækka ekki verðlag umfram tilefni. Það er vissulega einn mjög mikilvægur þáttur. Síðan er augljóst að staðan á fasteignamarkaði mun ráða mjög miklu. Þar þurfum við virkilega að fara yfir stöðu mála. Þetta var eitt af því sem unnið var að.“
Benti Katrín á í því samhengi að í aðdraganda lífskjarasamninga hefði verið settur á laggirnar sérstakur átakshópur um þróun á húsnæðismarkaði. „Töluvert hefur verið gert í því að bæta þar stefnumótun og yfirlit yfir stöðuna. Það breytir því ekki að staðan á húsnæðismarkaði er mjög þung núna. Við lesum nánast daglegar fréttir um það hvernig íbúðir seljast yfir ásettu verði á skömmum tíma og í raun og veru er barist um hverja eign. Ég held að það sé mjög stór þáttur sem við þurfum að horfa til. Húsnæðismálin munu verða á dagskrá næsta fundar í þjóðhagsráði þar sem koma saman aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnvalda, Seðlabanki og sveitarfélög. Það er stór þáttur í því sem við þurfum að horfa til,“ sagði hún.
„Síðan er spurt: Hvað getur Seðlabankinn gert annað? Auðvitað eru ýmsir fleiri undirliggjandi þættir sem þarf að horfa til við ákvörðun stýrivaxta, en ég held að við séum á þeim stað að full ástæða sé til þess að fylgjast mjög grannt með þróun mála af því að þetta er ekki góð þróun.“
Finnst stefna í verulegt óefni
Jón Steindór steig aftur í pontu og fullyrti að fasteignakaup með íslenskri krónu væru hrein áhættufjárfesting, eins og áður segir.
Vísaði þingmaðurinn í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar frá 14. apríl 2021 þar sem gert var grein fyrir óvissuástandi á fasteignamarkaði en þar stendur að í núverandi vaxtaumhverfi sé nauðsynlegt að lánveitendur sem og lántakendur séu meðvitaðir um að töluverðar breytingar gætu orðið á greiðslubyrði óverðtryggðra lána.
Benti Jón Steindór á að þetta gilti að sjálfsögðu jafnframt um verðtryggð lán. „Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst stefna í verulegt óefni. Sjaldan hefur jafn mikill fjöldi ungs fólks streymt inn á fasteignamarkaðinn og ég hef miklar áhyggjur af því að vaxtabyrðin, greiðslubyrðin, verði miklu meiri en lántakendur hafa reiknað með. Ég er hræddur um að það komi að litlu gagni að setja þetta mál í einhvers konar skoðun og nefnd. Hér hefur einfaldlega ekki tekist nógu vel til. Hvað hyggst ráðherra gera í þessum efnum?“ spurði hann.
Þingmaðurinn „helst til dramatískur“
Katrín svaraði og sagði að sér fyndist þingmaðurinn verða helst til dramatískur í síðari spurningu. „Staðreyndin er sú að tekist hefur gríðarlega vel upp við stjórn efnahagsmála á þessu kjörtímabili, hvort sem litið er til peningastefnu, stjórnar ríkisfjármála eða á vinnumarkaði. Þar á Seðlabankinn mikið hrós skilið fyrir hvernig hann hefur haldið á málum. Það breytir því ekki að þó að heilt yfir hafi gengið vel er full ástæða til að hafa áhyggjur þegar við sjáum verðbólguna fara upp.“
Telur ráðherrann mjög mikilvægt að skoða sérstaklega húsnæðismarkaðinn en hún sagði að þar hefði verið gripið til margháttaðra aðgerða; hlutdeildarlána til að styðja við kaupendur fyrstu eigna og aukins stuðnings við félagslegt húsnæðiskerfi.
„Það er eitt af aðalmálunum sem við höfum verið að ræða á vettvangi þjóðhagsráðs og ég held að það sé stóri þátturinn í stefnumótuninni fram undan í þessum málum. Hins vegar er það ekki svo að ég telji ástæðu til að hafa uppi stór orð um hvert stefni. Ég tel að Seðlabankinn hafi hingað til staðið sig vel og muni gera það áfram,“ sagði hún að lokum.