Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú og fyrrum stjórnarformaður DV, segir að Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, hafi þrívegis fundað með sér undir því yfirskini að menn tengdir Framsóknarflokknum vildu kaupa DV. Þetta hafi gerst á þeim tíma sem Ólafur var stjórnarformaður DV, en hann sagði sig úr stjórninni í maí í fyrra. Kjarninn sendi Hrólfi fyrirspurn um málið í gærmorgun en svar hefur ekki borist. Þá svaraði ekki á skrifstofu Framsóknarflokksins þegar hringt var þangað.
Hann segir að í kjölfarið hafi Þorsteinn sagt honum að í bígerð væri stór sameining DV við annan fjölmiðil
Ólafur var beðinn um að taka sæti í stjórn DV að nýju eftir að nýir eigendur, undir forystu Þorsteins Guðnasonar, tóku við miðlinum í september. Hann segir að í kjölfarið hafi Þorsteinn sagt honum að í bígerð væri stór sameining DV við annan fjölmiðil. Heimildir Kjarnans herma að fjölmiðlarnir sem Þorsteinn hafi áhuga á að sameinast séu Vefpressan (sem rekur m.a. Eyjuna, Bleikt og Pressuna), Fréttatíminn og/eða Útvarp Saga. Einhverjar viðræður hafa átt sér stað við að minnsta kosti hluta þessarra fjölmiðla. Kjarninn hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Þorstein símleiðis síðustu tvo daga en án árangurs.
Mikil átök um DV
Síðsumars hófust mikil átök um eignarhald DV þegar hópur undir forystu Þorsteins Guðnasonar vildi fá meirihluta í stjórn í takt við eign sína.
Á starfsmannafundi sem haldinn var daginn eftir að Þorsteinn og samstarfsmenn hans náðu yfirtökum á DV, og ráku Reyni Traustason fyrrum aðaleiganda og ritstjóra úr starfi, kom fram að Þorsteinn ætlaði sér ekki að eiga hlut sinn í DV lengi. Kjarninn komst yfir upptöku af fundinum þar sem Þorsteinn fullyrðir þetta.
Þorsteinn sagði einnig á fundinum að eignarhald hans væri að mestu tilkomið vegna þess að Gísli Guðmundsson, kenndur við B&L, hefði lánað Reyni Traustasyni fé fyrir tveimur árum og framselt kröfu vegna þess láns til Þorsteins. Kaup Þorsteins á öðrum hlutum í DV, meðal annars hlut Lilju Skaftadóttur, voru fjármögnuð með eigin fé og lánsfé. Allt í allt segir Þorsteinn að hann og viðskiptafélagar hans hafi sett 85 milljónir króna í DV.
Stór sameining í bígerð
Ólafur M. Magnússon átti hlut í DV um skeið og sat sem stjórnarformaður í eignarhaldsfélagi miðilsins þar til í maí 2013. Í samtali við Kjarnann segist hann hafa verið beðinn, af Þorsteini, að koma aftur inn í stjórn eftir að nýir eigendur voru teknir við. „Þeir vildu vita hvort ég væri tilbúinn að koma og taka til í þessum rekstri eins og ég hafði gert með Reyni og félögum með ágætis árangri. Ég sagði fyrst að ég væri svo sem alveg til í að skoða þetta, en það væri hins vegar mikið að gera hjá mér. Síðan er ég kosinn í stjórn DV, og það tilkynnt opinberlega, án þess að það hafi verið rætt neitt frekar við mig.“
Ólafur M. Magnússon hefur verið staðið í deilum við Mjólkursamsöluna undanfarin ár. Vegna fjárhagsvanda neyddist hann meðal annars til að selja Mjólku, fyrirtæki sem hann stofnaði og stýrði, til Kaupfélags Skagfirðinga. Kaupfélag Skagfirðinga er auk þess á meðal eigenda Mjólkursamsölunnar.
Í kjölfarið hafði Þorsteinn Guðnason, sem þá var orðinn stjórnarformaður DV, samband við Ólaf og bað hann um að taka að sér formannssæti í nefnd sem átti að taka rekstur DV í gegn. Ólafur segist strax hafa séð að hann gæti ekki tekið að sér svo mikla aukavinnu. „Ég var mjög upptekinn í mínum rekstri og sagði Þorsteini það. Hann sagði á móti að þetta myndi ekki standa yfir mjög lengi. Hann væri að biðja mig um að taka þetta starf í einn og hálfan til tvo og hálfan mánuð. Í bígerð væri stór sameining. Þá vissi ég hvað bjó að baki og sagði mig frá þessu.“
Segir Framsóknarflokkinn vilja DV
Aðspurður um hvað hann eigi við með ummælum sínum segist Ólafur hafa grunsemdir um að sterk peningaöfl, sem tengist Framsóknarflokknum, séu að komast yfir DV. Vilji til þess hafi staðið yfir lengi.
Þegar ég var stjórnarformaður DV á sínum tíma þá kom framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og hitti mig nokkrum sinnum og spurði hvort ég gæti beitt mér fyrir því hvort að menn tengdir flokknum gætu komist í að kaupa bréf í DV með einhverjum hætti.
Því til stuðnings segir Ólafur að Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, hafi komið þrívegis á sinn fund þegar hann var stjórnarformaður DV. Tilgangurinn var að kanna hvort menn tengdir Framsóknflokknum gætu keypt sig inn í DV. „Þegar ég var stjórnarformaður DV á sínum tíma þá kom framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og hitti mig nokkrum sinnum og spurði hvort ég gæti beitt mér fyrir því að menn tengdir flokknum gætu komist í að kaupa bréf í DV með einhverjum hætti. Það yrði auðvitað ekki flokkurinn sjálfur, heldur menn sem Kaupfélag Skagfirðinga myndi útvega fjármuni til þess að gera það. Ég ljáði auðvitað aldrei máls á þessu.“
Samþykktum breytt svo DV gæti sameinast öðrum
Á hluthafafundi DV, sem fram fór 8. október síðastliðinn, voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins. Þorsteinn Guðnason sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið þar sem sagði meðal annars að DV geti stækkað innan frá, til dæmis með yfirtöku eða sameiningu við önnur félög á fjölmiðlamarkaðnum. „Sennilega mun hvoru tveggja gerast. Til að renna enn styrkari stoðum undir félagið hafa forsvarsmenn þess átt í viðræðum við aðra fjölmiðla um samstarf eða viðskipti. Vinna við stefnumótun mun m.a. leiða í ljós með hvaða hætti slíkt samstarf eða viðskipti bera að. Mun frekar verða greint frá þessu á næstu dögum, auk þess sem frekari skipulagsbreytingar eru fyrirhugaðar í ljósi mannabreytinga sem urðu nýverið innan fyrirtækisins.“
Ólafur M. Magnússon hefur staðið í deilum við Mjólkursamsöluna undanfarin ár. Vegna fjárhagsvanda neyddist hann meðal annars til að selja Mjólku, fyrirtæki sem hann stofnaði og stýrði, til Kaupfélags Skagfirðinga. Kaupfélag Skagfirðinga er auk þess á meðal eigenda Mjólkursamsölunnar.