Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér formennsku í Eflingu í síðustu viku, segir græðgi og sjálfstökustemnginu í kringum hreyfinguna. „Þessi hreyfing er náttúrulega ríki í ríkinu. Þetta er ekki opinber stofnun og engin sem kemur og segir að það þurfi að fara í niðurskurð eða annað slíkt. Hún er bara sjálfsþjónandi fyrirbæri sem er áskrifandi að peningum.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við hana í Kjarnanum sem birtist á laugardag. Þá steig hún fram í fyrsta sinn síðan að hún tilkynnti um uppsögn og sagði sína hlið á málinu í viðtali.
Á meðal þess sem Sólveig Anna ræddi um var sú gagnrýni sem hópur fólks sem ráðinnvar inn til Eflingar eftir að hún og Viðar Þorsteinsson, nú fyrrverandi framkvæmdastjóri, tóku við stjórnartaumunum en var síðar látið fara. Maxim Baru, fyrrverandi sviðsstjóri félagssviðs Eflingar, sakaði þau til að mynda um útlendingaandúð og í opnu bréfi sem Christina Milcher, fyrrverandi starfsmaður Eflingar, skrifaði til þeirra sagði hún þau hafa beitt sig einelti og ofbeldi.
Ungt, lífsleitt millistéttarfólk
Sólveig segir þennan hóp hafa verið ungt, lífsleitt millistéttarfólk sem tilheyri ekki stétt vinnuaflsins og aðhyllist anarkó-syndikalisma. „Þetta er fólk sem gat ekki og ætlaði sér aldrei að virða lýðræðislega ferla innan félagsins. Það var með sín eigin hliðarmarkmið. Það er alveg augljóst að þetta fólk hefur ekki notið neinnar velgengni í sínum verkefnum í þessu samfélagi hér.“
Þetta fólk er líka uppfullt af þessari græðgi og sjálftökustemningu sem er svo tryllingsleg í kringum þessa hreyfingu. Þessi hreyfing er náttúrulega ríki í ríkinu. Þetta er ekki opinber stofnun og engin sem kemur og segir að það þurfi að fara í niðurskurð eða annað slíkt. Hún er bara sjálfsþjónandi fyrirbæri sem er áskrifandi að peningum. Maxim Baru og hans fólk, þau bara spottuðu þetta. Hann var hálaunastjórnandi hjá okkur og fór að ráða hirð í kringum sig. Erlenda fólkið sem hefur verið með gagnrýni á okkur er að uppistöðu úr þeirri hirð.“
Segir tilganginn annarlegan
Í síðustu viku birtist frétt á RÚV þar sem fjallað var um kvartanir fyrrverandi starfsfólks um slæman starfsanda, mikla starfsmannaveltu og ámælisverða hegðun Viðars gagnvart kvenkyns starfsfólki. Þar sagði meðal annars að Viðar hefði með símtali sagt upp starfsmanni þar sem hann var rúmfastur í öndunarerfiðleikum vegna COVID.
Sólveig Anna segir að það sé ekki satt sem fram komi í frétt RÚV, að henni hafi verið sýndar ásakanir sérstaklega framsettar af átta konum. „Mér var af mannauðsstjóra sýndar kvartanir í mars. Þær voru ódagsettar. Það voru engin nöfn sem fylgdu með. Það var engin leið til dæmis að sjá hvers kyns þeir sem settu fram kvartanirnar voru. Þetta var einfaldlega samansafn kvartana um mál sem geta komið upp á vinnustöðum. Að láta það líta út að þarna sé eitthvað sem eigi sér stað með kynbundnum hætti er ótrúlegt.“
Hún hafi samt sem áður tekið þetta alvarlega. Hún hafi litið svo á að þarna væri um endurgjöf vegna starfa Viðars að ræða og að hún hafi komið henni á framfæri við hann. „Svo átta ég mig á því að þessar umkvartanir sem mér voru sýndar þarna, þeim var safnað saman af óánægðum stjórnanda. Svo er þetta sett fram í kjölfarið með þessum hætti til mín. Annarlegur tilgangur segir ég.“