Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að samtökin telji að það sé sjálfsögð krafa að stjórnvöld efni til umræðu um aðgerðir sem snerta jafn mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar og íslenskur sjávarútvegur gerir. "Við gerum okkur grein fyrir því að málið er ekki einfalt og snertir víða hagsmuni. Hins vegar er það svo að áhrifin hitta okkur Íslendinga sérlega harkalega fyrir vegna þess hve samofnir hagsmunir Íslendinga og sjávarútvegsins eru[...]Hagsmunir Íslendinga í þessu máli tengjast ekki einungis hagsmunum nokkurra fyrirtækja í sjávarútvegi. Þeir varða þjóðarhag. Í húfi er fjöldi starfa, gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, afkoma sveitarfélaga víða um land, afkoma fyrirtækja sem skila samfélaginu stórum hluta tekna sinna sem við byggjum velferð okkar á." Þetta kemur fram í grein eftir Kolbein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Hörð gagnrýni Gunnars Braga
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær það vera óheiðarlegt hvernig sumir útgerðarmenn hafa talað um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Ef menn taki eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni þá veltir hann því óneitanlega fyrir sér hvort þeir séu bestu mennirnir til að fara með auðlindina. Utanríkisráðherrann sagði það síðan holan hljóm þegar talsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna væru að tala um að hagsmunir þjóðarinnar væru undir vegna ákvörðunar um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Útflytjendurnir væru fyrst og síðast að hugsa um næsta ársreikningi. Hann kallaði eftir því að þessir aðilar, sem treyst er fyrir auðlindinni, sýni samfélagslega ábyrgð.
Kolbeinn hafnar því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki horfa bara til næsta ársreiknings og segir þau hafa á undanförnum árum lagt í gríðarlega fjárfestingar á skipum og vinnslum til að geta eflst og stækkað. " Við hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi höfum ekki áhuga á að því að leggjast í skotgrafahernað við einstaka menn eða ráðuneyti, við gerum okkur vel grein fyrir því hve flókin staða þetta er. Við óskum hins vegar eftir því að unnið sé í friðsemd að því að gera sem best úr stöðunni og hægt er úr því sem komið er með hagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi."
Ekki einhugur í ríkisstjórn
Gunnar Bragi sagði í hádegisfréttum í gær að ólíklegt væri að stuðningurinn yrði afturkallaður. Hann sagði að einhugur sé í ríkisstjórn um viðskiptaþvinganirnar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar í gærkvöldi við Morgunblaðið að hann hefði verið hugsi yfir því hvort rétt sé af hálfu Íslendinga að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins og vesturvelda gagnvart Rússlandi. Þá sagði Bjarni að hann hefði gert grein fyrir efasemdum sínum um málið á ríkisstjórnarfundum þegar það var rætt. Endurskoða hefði átt málið eftir því sem á leið og sérstaklega eftir að Rússar ákváðu að fara í gagnaðgerðir. Málið varði mikla hagsmuni fyrir Íslendinga og að við þurfum að meta það eftir því sem aðstæður breytast. Bjarni segir að aðstæðurnar hafi þegar breyst.