Kreppan sem skall á vegna faraldursins gæti orðið mikil og þrálát hér á landi, þar sem tiltölulega stór hluti hagkerfisins reiðir sig á ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að auka sveigjanleika á vinnumarkaðnum, til dæmis með breyttri kjarasamningagerð, til að koma í veg fyrir langtímaskaða.
Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu og horfur í íslenskum efnahagsmálum, sem birt var á vef Seðlabankans fyrr í vikunni.
Kjarninn hefur áður fjallað um skýrsluna, en hún gerir ráð fyrir hægum bata í ferðaþjónustunni að faraldrinum loknum. Máli sínu til stuðnings vísar sjóðurinn í spár ferðamálastofu Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) um að það taki tvö og hálft til fjögur ár fyrir greinina að verða jafnstór og hún var árið 2019.
AGS segir einnig að stórum efnahagskreppum fylgi oft langtímaskaði fyrir hagkerið, sem lýsi sér í viðvarandi framleiðslutapi. Að mati sjóðsins er hætta á að framleiðslutapið verði mikið og þrálátt hér á landi vegna hás vægis ferðaþjónustunnar.
Samkvæmt skýrslunni getur mikið atvinnuleysi dregið úr sveigjanleika á vinnumarkaði og aukið hættuna á langtímaatvinnuleysi. Sjóðurinn segir einnig að íslenska kjarasamningalíkanið geti einnig hægt á efnahagsbatanum hér á landi, þar sem mikil völd stéttarfélaga hafi leitt til þess að laun hafi ekki vaxið í takt við framleiðni síðan árið 2015.
Aukinn sveigjanleiki í kjarasamningagerð, til dæmis með því að leyfa einstökum fyrirtækjum að semja beint við launþega um einstök akvæði samninganna í meira mæli, eða með því að láta laun fylgja framleiðniþróun í geiranum, gæti komið í veg fyrir að áhrif kreppunnar verði langvinn, að mati AGS.