Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi innanríkisráðherra, hyggst snúa aftur á Alþingi á morgun, en hún tók sér frí frá þingstörfum þann 21. nóvember síðastliðinn þegar hún hætti sem ráðherra vegna lekamálsins. Hanna Birna tók ákvörðun um að segja af sér sem innanríkisráðherra í kjölfar þess að aðstoðarmaður hennar Gísli Freyr Valdórsson hlaut skilorðsbundin fangelsisdóm fyrir aðild sína að lekamálinu.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sagði í sjónvarpsþættinum Eyjunni undir kvöld, þar sem hann var gestur ásamt Brynjari Níelssyni þingmanni Sjálfstæðisflokks, að heppilegra hefði verið ef Hanna Birna hefði gert hreint fyrir sínum dyrum gagnvart Alþingi áður en hún tók ákvörðun um að snúa aftur á þing. Eins og kunnugt er afþakkaði Hanna Birna boð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að mæta á fund til að ræða lekamálið.
Nefndin bauð Hönnu Birnu að mæta á fundinn bréfleiðis þann 22. janúar síðastliðinn, þar sem mörgum þingmönnum hafi þótt fullyrðingar hennar um lekamálið í þingsal vera mótsagnakenndar eða ekki geta staðist. Eftir að boð nefndarinnar var ítrekað þann 12. mars afþakkaði Hanna Birna formlega boðið bréfleiðis fjórum dögum síðar.
Óheppilegt að Hanna Birna hafi ekki viljað ræða lekamálið
Í Eyjunni í kvöld sagði Helgi Hjörvar: „Það sem er einhvern veginn ólokið í þessu er framkoma hennar eða samskipti við Alþingi sem ráðherra. Vegna þess að það er erfitt, og nú hef ég ekki fengið tækifæri til að ræða þetta við hana beint á nefndarfundi eins og ég hefði óskað, að líta öðruvísi á en svo að hún hafi að minnsta kosti ekki upplýst þingið eins vel og hún gat, ef maður á ekki að segja að hún hafi beinlínis villt um fyrir þinginu með ýmsum ummælum sem hún lét þar falla. Það er ekkert sem var tekið á í skýrslu umboðsmanns eða afsögn hennar sem ráðherra laut að, og það varðar auðvitað þann trúnað sem hún nýtur í þinginu. Sagði hún okkur satt um það sem var að gerast? Það er óheppilegt að hún hafi ekki tekið þá umræðu við nefndina.“
Aðspurður um hvernig honum litist á endurkomu Hönnu Birnu svaraði Brynjar Níelsson, sem er varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar: „Mér líst bara ágætlega á það. Hún er kjörin þingmaður og á að mæta í vinnuna.“ Aðspurður um hvort það ríki sátt innan þinflokksins um endurkomu Hönnu Birnu svaraði Brynjar: „Það held ég svona almennt, en ég svo sem hef ekki kannað það. Auðvitað getur verið að einhverjir hafi mismunandi skoðanir á því hvað sé best að gera og hvað sé skynsamlegast fyrir hana að gera og svo framvegis, það er bara eins og gengur og gerist.“