Merki eru um að hækkun húsnæðisverðs sé orðin umfram það sem megi skýra með þeim efnahagslegu grunnþáttum sem til lengri tíma ráða mestu um þróun þess. Þetta kemur fram í nýjasta riti Peningamála Seðlabankans sem kom út í morgun.
Svipuð þróun í nágrannalöndum
Samkvæmt bankanum eru einnig vísbendingar um að húsnæðisverð hafi hækkað umfram þróun grunnþátta þess í öðrum löndum, en svipaðar verðhækkanir hafa einnig átt sér stað í Noregi, Danmörku og Svíþjóð á síðustu tólf mánuðum.
Bankinn heldur úti um svokallaða húsnæðisverðsjöfnu í þjóðhagslíkani sínu, sem metur hækkun húsnæðisverðs út frá sögulegu sambandi þess við kaupmætti ráðstöfunartekna og raunvaxta húsnæðislána.
Samkvæmt þeirri jöfnu var verðhækkunin á markaðnum nokkuð minni en búast mætti við í fyrra, miðað við meiri ráðstöfunartekjur og lægri vexti. Hins vegar fór verð að hækka mun hraðar á síðustu tveimur ársfjórðungum og eru þær nú nokkuð yfir því sem spá líkansins gefur til kynna.
Hægir á verðhækkunum á næsta ári
Seðlabankinn segir þessar verðhækkanir hafa verið ástæðan fyrir því að fjármálastöðugleikanefnd hafi ákveðið að lækka hámarksveðsetningarhlutfall á nýjum fasteignalánum í haust, auk þess sem hann lækkaði hámarksgreiðslubyrði nýrra fasteignalána niður í 35 prósent af ráðstöfunartekjum og hækkaði eiginfjárkröfur á fjármálafyrirtæki.
„Þessar aðgerðir ásamt vaxtahækkunum bankans ættu að stuðla að hægari hækkun húsnæðisverðs og gerir grunnspá bankans ráð fyrir að hægja muni töluvert á árshækkuninni þegar kemur fram á seinni hluta næsta árs,“ stendur í Peningamálum.