Sýrlendingur, sem hefur flúið úr röðum ISIS-samtakanna, segir að íslenskur kvikmyndagerðarmaður hafi gengið til liðs við samtökin og það útskýri fagmannlega unnin myndbönd sem notuð séu til að laða að nýja meðlimi og áhorfendur í Vestrænum ríkjum. Á meðal þeirra myndbanda sem ISIS-hefur dreift eru myndbönd af afhöfðunum vestrænna manna sem þau hafa verið með í haldi.
Frá þessu er greint í bloggfærslu sem birtist í gær á heimasíðu New York Review of Books. Grapevine greindi frá tilurð bloggfærslunnar í morgun.
ISIS-samtökin, sem ganga líka undir nafninu Íslamska Ríkið, hafa náð á sitt vald stórum svæðum í Írak og Sýrlandi og berjast hatramlega gegn þarlendum stjórnvöldum.
Í bloggfærslurnni, sem Sarah Birke, fréttaritari The Economist í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, skrifar, en hún býr í Damascus í Sýrlandi, kemur fram að Abu Hamza, sem hafði flúið úr röðum ISIS, hafi sagt henni að íslenskur kvikmyndagerðarmaður væri á meðal þeirra sem gengið hefðu til liðs við samtökun og að það væri ástæðan fyrir því að myndbönd þeirra væru jafn fagmannlega gerð og raun ber vitni.
ISIS skráði lén á Íslandi
Í október síðastliðnum var greint frá því að ISIS hefði skráð lén með .is endingum. Um var að ræða Khilafah.is, fréttasíðu samtakanna. ISNIC, sem fer með lénaskráningu .is léna, lokaði lénum sem ISIS notaðist við þann 12. október á grundvelli reglna fyrirtækisins um lénaskráningu, þar sem fram kemur að rétthafa léns beri að ábyrgjast að notkun léns sé í samræmi við íslensk lög.
Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ISNIC hefur lokað léni vegna innihalds hans.