„Ekkert eitt getum við gert sem skiptir meira máli en það að ná aftur tökum á verðlagsþróun og það ætti að vera í forgrunni umræðunnar. Hvað getum við gert til þess að slá aftur niður verðbólguvæntingar? Hvernig getum við beitt ríkisfjármálunum til að svo megi verða og hvernig samstillum við þær aðgerðir við aðgerðir Seðlabankans? Ekkert eitt skiptir meira máli en nákvæmlega þetta.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins sagði að ríkisstjórnin þyrfti að sýna pólitískt hugrekki og verja heimilin. Hún þyrfti að taka pólitíska ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að enginn skyldi missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt væri að varði um hríð. Hún spurði ráðherrann meðal annars hvort ríkisstjórnin væri tilbúin til þess að tryggja heimilum stöðugleika eða ætlaði hún að láta þau „gossa“.
Ásthildur Lóa hóf fyrirspurn sína á því að segja að hækkanir á greiðslubyrði heimila og fyrirtækja upp á tugi þúsunda á mánuði væru í kortunum.
„Við horfðum á meðferð bankanna á heimilunum eftir síðasta hrun og þar var enga miskunn að finna. Og þótt það hrun væri alfarið þeim sjálfum að kenna þá kunnu þeir ekkert að skammast sín heldur fóru af fullri hörku eftir eigin fórnarlömbum. Og nú stefnir aftur í að heimilunum verði fórnað fyrir svokallaðan stöðugleika. En fyrir hvern er sá stöðugleiki ef heimilunum er fórnað fyrir hann?“ spurði hún.
Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar „munu augljóslega ekki duga til“
Þá spurði þingmaðurinn einnig hvernig hann sæi fyrir sér að heimili, með 300.000 til 500.000 til ráðstöfunar á mánuði, réði við 25.000 til 40.000 króna hækkun. Það væri það sem myndi bætast við lán margra vegna 1 prósent hækkunar á viðmiðunarvöxtum Seðlabankans.
„Tugþúsundahækkanir eru yfirvofandi á leigumarkaði og boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna þeirra munu augljóslega ekki duga til. Hvað verður um leigjendur sem ekki standa undir hækkandi leigu? Hvar eiga þeir að búa?“ spurði hún.
Mannréttindi að eiga heimili
„Er ríkisstjórnin tilbúin að gefa það út að enginn muni missa heimili sitt í þeim hremmingum sem fyrirsjáanlegar eru og aðstæðum sem venjulegt heimili hefur lítil sem engin áhrif á? Og að lokum? Er réttlætanlegt að svipta hundruð eða þúsundir fjölskyldna heimilum sínum fyrir stöðugleika hinna? Er réttlætanlegt að sumir gjaldi fyrir stöðugleikann með heimili sínu? Er réttlætanlegt að krefjast slíkra fórna?
Það eru mannréttindi að eiga heimili og börn eiga rétt á að búa á öruggu heimili. Ríkisstjórnin þarf að sýna pólitískt hugrekki og verja heimilin. Hún þarf að taka pólitíska ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð. Aðeins þannig tryggjum við heimilunum stöðugleika. Er ríkisstjórnin tilbúin til þess eða ætlar hún að láta heimilin gossa?“ spurði hún að lokum.
Dregur í efa að dæmið sem þingmaðurinn nefndi sé dæmigert
Bjarni svaraði og sagði að það væri ástæða til þess að fylgjast mjög náið með greiðslubyrði og getu heimilanna til að standa í skilum með skuldbindingar sínar.
„Við getum þó haft í huga í þessu sambandi að sú staða hefur ekki áður verið betri en í upphafi þessa árs og undir lok þess síðasta, það er hlutfall heimila sem eiga í vandræðum með að láta enda ná saman um lok mánaðar hefur ekki áður verið lægra og það er mjög góð vísbending,“ sagði ráðherrann og bætti því við að hann leyfði sér að draga í efa að þetta væri dæmigert tilvik sem Ásthildur Lóa nefndi – að það væri algengt að fólk neðarlega í tekjustiganum væri að sjá þetta mikla aukningu á greiðslubyrði á mánuði vegna síðustu vaxtaákvörðunar.
Þetta er einnig í höndum fjármálafyrirtækjanna
„En það breytir ekki hinu að ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að bregðast við og ég ætla að mæla hér fyrir frumvarpi síðar í dag um aðgerðir til þess að koma til móts við þá sem hvað minnst hafa milli handanna í samfélaginu. Ekkert eitt getum við gert sem skiptir meira máli en það að ná aftur tökum á verðlagsþróun og það ætti að vera í forgrunni umræðunnar. Hvað getum við gert til þess að slá aftur niður verðbólguvæntingar? Hvernig getum við beitt ríkisfjármálunum til að svo megi verða og hvernig samstillum við þær aðgerðir við aðgerðir Seðlabankans?
Ekkert eitt skiptir meira máli en nákvæmlega þetta. Í millitíðinni, þar til því verður náð, eru mörg úrræði og þau eru ekki öll eingöngu hjá ríkisvaldinu til að grípa inn í. Þau eru líka í höndum fjármálafyrirtækjanna sem hafa hér ríkri skyldu að gegna við að koma til móts við þarfir þeirra sem þurfa á fyrirgreiðslu að halda,“ sagði hann.
Varðandi leigjendur þá sagði Bjarni að hann væri þeirrar skoðunar að stjórnvöld þyrftu að fylgjast jafn vel með þeim markaði eins og húsnæðismarkaðnum þar sem kaupendur eru fyrir og eigendur vegna þess að þar sýndu tölurnar að það væru líka viðkvæm heimili sem ættu í hlut.
Fjármálafyrirtækin „sýna enga miskunn“
Ásthildur Lóa kom aftur í pontu og sagði að málið væri að of seint væri í rassinn gripið að gera eitthvað þegar fólk væri komið í vanda – og hann væri fyrirsjáanlegur.
„Það að ætla að treysta á miskunn fjármálafyrirtækja – hæstvirtur ráðherra verður bara að fyrirgefa – það gengur ekki upp. Þau sýna enga miskunn, ég hef persónulega reynslu af því og það hafa þúsundir annarra. Það er ekkert hægt að treysta á það, hún er ekki fyrir hendi. Og hversu dýru verði er það keypt að ná tökum á verðbólgunni með þessum hætti? Kostnaðurinn við húsnæði er stærsti pósturinn hjá öllum heimilum og hann hækkar.
Þetta er líka sá póstur sem fólk hefur minnsta stjórn á. Það getur stjórnað neyslu sinni, við getum ákveðið að keyra minna eða kaupa ódýrari tegundir af einhverju eða bara ákveðið að lifa á hafragraut í einhvern tíma til að bjarga okkur ef þess þarf. En húsnæðiskostnaðurinn er það sem er hvað erfiðast að standa undir. Mig langar bara að nefna að við förum allt aðrar leiðir en þjóðirnar í kringum okkur þar sem vextir eru ekki svona háir. Í 9 prósent verðbólgu eru Bretar að hækka um 0,25 prósent,“ sagði þingmaðurinn.
Hefur persónulega reynslu af því að þurfa nauðbeygður að taka lán á hærri vöxtum
Bjarni svaraði í annað sinn og sagði að í sögulegu ljósi væru vextir ekki mjög háir í dag. Hann hefði einmitt persónulega reynslu, eins og Ásthildur Lóa, af því að þurfa nauðbeygður að taka lán á langtum hærri vöxtum en eru markaðsvextir í dag – langtum hærri vöxtum – og sitja svo uppi með 20 prósent afskriftir af húsbréfunum, þar sem hann hefði í raun og veru einungis fengið 80 prósent af láninu sem hann lofaði að borga til baka.
„Í þessu samhengi, í sögulegu ljósi, eru kjörin enn þann dag í dag mjög góð. Það breytir því ekki að margir kunni að hafa spennt bogann mjög hátt og þola lítið, hafa ekki mikið borð fyrir báru til að ráða við aukna greiðslubyrði. Þá eru mörg úrræði sem á að horfa til áður en til þess kemur að menn grípi inn í, eins og háttvirtur þingmaður er í raun og veru að leggja til hér, að ríkið grípi inn í samninga um húsnæðislán, grípi með einhverjum hætti inn í málin, og þvingi fram niðurstöðu sem ekki fæst á markaði. Ég verð að segja að á þessum tímapunkti held ég að það væri mikið óráð að fara þá leið,“ sagði ráðherrann.