Utanríkisráðherrar frá Póllandi, Ungverjalandi, Tékklandi og Slóvaíku hittast nú á fundi í Prag vegna flóttamannakrísunnar. Ríkin fjögur eru öll mótfallin tillögum Þjóðverja og Frakka um að öll ríki ESB uppfylli einhvern lágmarkskvóta í fjölda fólks sem tekið verður á móti.
„Þau eru að valta yfir okkur,“ sagði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands um málið í dag, skömmu áður en ungverska þingið ákvað að veita hernum aukið vald. „Þau eru ekki bara að banka á dyrnar heldur brjóta þær niður ofan á okkur. Landamærum okkar er ógnað. Ungverjalandi er ógnað sem og allir Evrópu.“
Nýju lögin sem samþykkt voru heimila hermönnum að nota gúmmíkúlur, táragas og netabyssur á flóttamenn við landamæri ríkisins. Ungverjar hafa opnað landamæri sín við Serbíu á nýjan leik eftir lokun í síðustu viku sem varð til þess að mikill straumur fólks fór til Króatíu í staðinn. Tæplega 30 þúsund manns hafa komið til Króatíu.
Orban hvatti til samstöðu meðal Evrópuríkja um þessi mál, en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína og ríkisins í málinu. Í dag er þessi fundur utanríkisráðherra Austur-Evrópuríkja, en þar með er fundahöldum ekki lokið. Á morgun munu innanríkis- og dómsmálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna funda í Brussel til að reyna að komast að niðurstöðu um það hversu mörgum flóttamönnum hvert ríki taki á móti. Á miðvikudag mun leiðtogar Evrópuríkjanna svo koma saman til sérstaks fundar vegna málsins.