Mældar launahækkanir samkvæmt launavísitölu Hagstofu hafa verið meiri hjá starfsmönnum á opinbera vinnumarkaðnum heldur en á almenna vinnumarkaðnum. Samkvæmt nýútgefinni vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar skýrist munurinn meðal annars af því að stytting vinnuvikunnar hefur verið meiri hjá opinberum starfsmönnum heldur en öðrum.
Meiri kaupmáttur þar sem kreppan er ójöfn
Skýrslan fór yfir þróun launa og kaupmáttar á meðal mismunandi launþegahópa frá undirritun lífskjarasamningsins í mars 2019. Samkvæmt henni hefur betur tekist að verja kaupmátt ráðstöfunartekna samfélagsins nú en í síðustu kreppu, þar sem hann jókst lítillega í ár en dróst saman um 14 prósent árið 2009.
„Að einhverju leyti má rekja það til þess að atvinnuleysi bitnar nú harðar á tekjulægri hópum á vinnumarkaði en í kreppunni 2008-2010 sem fer þá á mis við almenna kaupmáttaraukningu,“ segir í skýrslunni.
Vísitalan hækkar með styttri vinnuviku
Samkvæmt Kjaratölfræðinefnd getur stytting vinnuvikunnar verið ígildi launabreytinga og hækkað launavísitöluna ef vinnutíminn er styttur umfram niðurfellingu neysluhléa. Þá fækki greiddum stundum sem standa að baki óbreyttum mánaðarlaunum og mæld laun á hverja greidda stund hækka.
Frá árinu 2019 hafa launahækkanir verið nokkuð mismunandi á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Á milli marsmánaða 2019 og 2020 hækkuðu til dæmis laun starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum tvöfalt meira en laun þeirra sem voru á opinbera markaðnum. Samkvæmt nefndinni er munurinn tilkominn vegna mismunandi tímasetninga kjarasamninga.
Í fyrra jafnaðist svo þessi munur út og eftir kjarasamningsbundnar launahækkanir í janúar 2021 tók launavísitalan á opinbera markaðnum fram úr vísitölunni á almenna markaðnum.
Samkvæmt skýrslunni má rekja meiri launahækkun opinberra starfsmanna meðal annars til þess að stytting vinnutíma á opinbera markaðnum hafi numið 13 mínútum á dag, en aðeins 9 mínútum á þeim almenna. Einnig séu taxtalaun algengari á opinbera vinnumarkaðnum, en þau voru hækkuð sérstaklega í nýlegum kjarasamningum.