Kristín Vala hefur á síðustu árum stýrt stórum rannsóknarverkefnum sem snúa að sjálfbærni, meðal annars verkefnis sem nýtur styrks frá Evrópusambandinu þar sem jarðvegur er rannsakaður sem kerfi. Í þættinum sagði hún að ef það næst ekki árangur á fundinum í París gæti stór hluti jarðarinnar orðið óbyggilegur fyrir manninn í lok þessarar aldar. „Ég held í rauninni að þessi fundur sem verður í París í desember sé líklega mikilvægasti fundur sem haldinn hafi verið í heiminum okkar alla tíð. Ef við náum ekki árangri þar, hvernig við ætlum að minnka útblástur, þá erum við líklegast búin að missa loftslagsmálin út úr höndunum á okkur. Þá förum við út í fleiri og fleiri jákvæða hringi sem valda meiri og meiri hlýnun. Í staðinn fyrir að við endum í tveimur gráðum með því að minnka gríðarlega mikið útblástur, þá förum við kannski í fimm, sex gráður í lok þessarar aldar. Þá verður stór hluti jarðarinnar óbyggilegur fyrir manninn. Við erum þegar farin að sjá allt þetta streymi fólks frá hinum ýmsu Afríkuríkjum. Þetta eru ríki þar sem er mikið þjóðfélagslegt ójafnvægi vegna loftslagsbreytinga."
Kristín Vala skrifar reglulega álitsgreinar á Kjarnann, meðal annars um umhverfismál og sjálfbærni.
Miklar vonir bundnar við Parísarráðstefnuna
Miklar vonir eru bundnar við loftslagsráðstefnuna í París en þar er markmiðið að búa til lagalega bindandi þverþjóðlegt samkomulag um loftslagsmálin. Undirbúningur fyrir ráðstefnuna hefur staðið undanfarin ár, ekki síst með stefnumótun einstakra þjóða í orkumálum. Ljóst er að mikill vilji virðist vera hjá stórum leikendum á alþjóðasviðinu til að bregðast við þeirri vá sem loftlagsbreytingar.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, setti til að mynda nýjar loftlagsreglur í síðustu viku með einhliða ákvörðun embættisins um að losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið verði minnkuð um 32 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Ákvörðunin hefur mætt þó nokkurri andstöðu frá repúblikönum og orkufyrirtækjum.
„Við eigum bara eitt heimili. Það er bara ein Jörð. Það er ekkert plan B,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, þegar hann kynnti áætlun sína í síðustu viku. „Við erum fyrsta kynslóðin sem finnur fyrir áhrifum hnattrænnar hlýnunar. Við erum síðasta kynslóðin sem getur gert eitthvað í því.“
Margir af helstu leiðtogum heimsins hafa fagnað þessari áætlun Obama.Francois Hollande, Frakklandsforseti, sagði hugrekki Obama mikið í að ná þessu í gegn. „Þetta mun hjálpa mikið til þegar kemur að loftslagsráðstefnunni í París,“ sagði hann. Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, tók í sama streng. „Áætlun Obama er til fyrirmyndar um nauðsynlega framtíðarsýn sem þarf til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu aðalritarans.
Nýverið tilkynntu íslensk stjórnvöld markmið landsins í loftslagsmálum til ársins 2030. Íslensk stjórnvöld munu leitast við að ná sameiginlegu markmiði með Evrópusambandsríkjunum og Noregi um 40 prósent minnkun losunar koltvíoxíðs sé miðað við árið 1990.
Á ráðstefnunni í París verður meiri krafa gerð til þróaðra ríkja en þróunarríkja, að því er segir í fréttatilkynningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins síðan í júní. Þar segir einnig af aðferðinni sem freistast verður til að nota. Ólíkt því þegar Kýótó-samkomulagið var gert, þegar samið var um losunarmark hvers ríkis, er hverju ríki ætlað að setja sér eigin markmið til ársins 2030.