Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar ræddu sjávarútvegsmál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Oddný spurði Svandísi meðal annars hvort hún ætlaði að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum sem vinna gegn samþjöppun í sjávarútveginum. Ráðherrann svaraði og sagði að það væri afar mikilvægt að grafast fyrir um þessi mál og fara í þá vinnu sem þyrfti að fara í – hvort sem það endaði með frumvarpi eða öðru, því að þetta væri meinsemd í kerfinu sem yrði að komast fyrir með því að afla fullnægjandi upplýsinga.
Ráðherrann sagði jafnframt að hún hefði nú þegar óskað eftir tilnefningum í sérstaka nefnd sem myndi „fara í saumana á öllum þessum málum“.
Veiðigjöldin sem útgerðir greiða fyrir afnot af þjóðarauðlindinni allt of lág
Oddný hóf mál sitt á því að segja að sjávarútvegurinn væri nátengdur sögu og sál íslensku þjóðarinnar. „Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa í gegnum aldirnar verið okkar mikilvægustu atvinnugreinar og haldið landinu í byggð. Margt er mjög vel gert í sjávarútvegi nú á dögum en þrátt fyrir það ríkir um greinina rótgróið vantraust og ósætti. Það er ekki að ástæðulausu. Kvótakerfið og úthlutun kvóta er lokað kerfi. Nýliðun er þar nánast ómöguleg og kvótinn erfist, helst innan fjölskyldna eða safnast á fárra hendur.“
Þá benti hún á að stórútgerðir möluðu „gull“.
„Ofsagróði þeirra hefur ruðningsáhrif. Fáir aðilar verða allt of valdamiklir í samfélaginu og teygja arma sína víða í viðskiptalífinu með fjárfestingum utan greinarinnar. Veiðigjöldin sem þessar útgerðir greiða fyrir afnot af þjóðarauðlindinni eru allt of lág. Það blasir við að þjóðin fær ekki réttlátan hlut í arðinum.
Nú þegar almenningur þarf að bera kostnaðinn af hærri verðbólgu með hækkandi verði á matvörum, hærra húsnæðisverði, hærri leigu og hærri vöxtum á lánum er eðlilegt að fólk spyrji hvers vegna stjórnvöld sjái ekki til þess að stærri hluti arðsins af auðlindinni renni í ríkissjóð og þaðan til að greiða fyrir mótvægisaðgerðir til að jafna leikinn. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu með meira en 70 prósent kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Lagagreinarnar um tengda aðila í lögum um stjórn fiskveiða eru svo óskýrar að Fiskistofu er ómögulegt að fara með skilvirkt eftirlit með skaðlegri samþjöppun í greininni,“ sagði hún.
Oddný spurði því ráðherrann hvort hún væri ekki sammála því að um óheillaþróun væri að ræða. „Mun hæstvirtur ráðherra leggja fram frumvarp um breytingar á lögum sem vinna gegn samþjöppun í greininni?“
Nefnd mun fara í saumana á þessum málum
Svandís svaraði og sagðist raunar telja að það sem Oddný benti á – þessa mikla samþjöppun aflaheimilda og þar með auðs í landinu – væri önnur meginástæðna þess djúpstæða vandamáls sem væri í samfélaginu, vantrausts á þessari lykilatvinnugrein, meðan hin meginástæðan væri sennilega sú sem lyti að tilfinningunni fyrir því að fólk væri ekki að sjá sanngjarnan arð renna í sameiginlega sjóði. „Ég held að það séu þessar tvær meginástæður.“
Hún sagðist hafa horft sérstaklega til þeirra atriða Oddný nefndi varðandi samþjöppun og tengda aðila.
„Ég held að það sé afar mikilvægt að grafast fyrir um þessi mál og fara í þá vinnu sem þarf að fara í, hvort sem það endar með frumvarpi eða öðru, því að þetta er meinsemd í þessu kerfi sem verður að komast fyrir með því að afla fullnægjandi upplýsinga í þessu efni,“ sagði hún.
Svandís nefndi einnig að „stór nefnd“ ætlaði að fara í saumana á öllum þessum málum og hefði hún óskað eftir tilnefningum í hana. „Þá gæti líka komið til þess að við þurfum að huga sérstaklega að því hversu langur tími líður frá því að forsendur veiðigjalds koma fram þangað til að það er reitt af hendi. Ég nefni þá sérstaklega til að mynda uppsjávarflotann, eins og núna þegar við erum að sjá mikinn loðnuafla en væntanlega bara tekjur af því í ríkissjóð eftir tvö ár. Það er eitt af því sem við þurfum líka að horfa til.“
Spurði hvort gögnin sem liggja fyrir væru ekki nægileg
Oddný kom aftur í pontu og sagði að hún áttaði sig á því að ríkisstjórnin vildi hvorki ýta undir nýliðun með útboði né freista þess að fá hærri veiðigjöld.
„Þau horfa hins vegar á útboðsmarkaði útgerðarinnar þar sem kíló af þorski er leigt á 300 krónur. Á sama tíma er veiðigjaldið fyrir kíló af þorski rúmar 17 krónur sem renna í ríkissjóð,“ sagði hún og bætti því við að hún skildi Svandísi þannig að hún teldi að það þyrfti að safna fleiri gögnum og skrifa fleiri skýrslur.
„Ég vil því spyrja hvort skýrslurnar og gögnin sem fyrir liggja séu ekki nægileg. Koma þau ekki að gagni? Kemur skýrsla verkefnisstjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni, sem skilað var í lok árs 2019, ekki að gagni? Þar er brugðist við ábendingum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Er hæstvirtur ráðherra ekki sammála því að endurskoða þurfi lögin strax í þeim anda sem verkefnisstjórnin lagði til og ekki þurfi að bíða eftir fleiri skýrslum til að vinna gegn skaðlegri samþjöppun í greininni?“ spurði hún.
Tók undir að ekki væri þörf á mikilli skýrslugerð
Svandís svaraði í annað sinn og sagði að sú vinna sem Oddný vísaði til væri sannarlega fyrir hendi.
„Ég tel raunar, og tek undir þau orð háttvirts þingmanns, að það sé ekki þörf á mikilli skýrslugerð, það er gríðarlega mikið magn af upplýsingum sem liggja fyrir nú þegar og töluvert af því sem hægt er að byggja á nú þegar. Ég er ekki talsmaður þess að við bíðum fram undir lok þessa kjörtímabils með að koma hér með frumvörp til að bæta það sem augljóslega er hægt að bæta án þess að þar fari á undan einhver gríðarlega mikil vinna,“ sagði ráðherrann og bætti því við að þannig væri hún sammála Oddnýju hvað það varðaði.
„Og af því að ég var að nefna hér hagnað útgerðarfyrirtækja, og mér finnst það skipta líka miklu máli í þessari umræðu, þá er það þannig að tvö útgerðarfyrirtæki hafa gefið upp að hagnaður þeirra hafi verið á annan tug milljarða á síðasta ári. Samkvæmt þeim er stærsta ástæðan sögulega hátt verð á loðnuafurðum á síðasta ári og gott gengi í öðrum tegundum og stór loðnuvertíð. Eins og veiðigjöldin virka mun þessi góða afkoma skila meiru á næsta og þarnæsta ári. En að mínu mati þarf að horfa betur til þess að hægt sé að innheimta þessar tekjur í ríkissjóð með þéttari hætti, ef svo má að orði komast,“ sagði hún að lokum.